Fá viðbótarfjármagn til að þjónusta börn sem bíða

Sú breyting mun eiga sér stað á næstu vikum að leikskólar Reykjavíkurborgar geta fengið viðbótarfjármagn svo veita megi börnum sem eru á biðlista eftir einhverfugreiningu viðeigandi stuðning. Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, í samtali við mbl.is.

Greint hefur verið frá því að bið eftir fullnaðargreiningu vegna einhverfurófs hjá geðheilsumiðstöð barna sé að minnsta kosti 30 mánuðir, en tilvísunum hefur fjölgað mikið síðustu mánuði. Áður þarf að fara fram frumgreining hjá sálfræðingi þjónustumiðstöðvar, en bið eftir henni getur tekið allt að 18 mánuði.

„Við erum að breyta reiknilíkani leikskóla. Af því það er svo löng bið eftir formlegri greiningu að þá erum við að setja inn, ef sálfræðingar á þjónustumiðstöðvunum hjá okkur eru búnir að gera frummat, þá erum við að fara að setja inn stuðning til þessara barna,“ segir Helgi.

Reiknilíkani vegna fjárveitinga til grunnskóla hafi einnig verið breytt þannig veita megi börnum stuðning á breiðari grundvelli en áður.

Á aldrei að heyrast að ekkert sé hægt að gera

Það hefur hins vegar komið fram að börn á biðlista eftir greiningu fá ekki alltaf viðeigandi þjónustu í hefðbundnum grunnskólum, en það virðist vera mismunandi eftir skólum hvort fullnaðargreining er skilyrði fyrir stuðningi eða ekki.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Anna Sigríður Pálsdóttir, yfirlæknir hjá geðheilsumiðstöð barna, benti á það í viðtali við mbl.is á laugardag að lögum samkvæmt þurfi ekki börn ekki lengur greiningu til að fá aðstoð. Geri skóli slíka kröfu þurfi að tilkynna það, til að mynda til þjónustumiðstöðvar borgarhlutans.

Helgi segir það rétt að ekki þurfi greiningu til að barn fái viðeigandi þjónustu. Öll börn eigi að fá þá þjónustu sem þau þarfnast í skólakerfinu. Verið sé að skerpa á því í samstarfi við skólana.

„Það á aldrei að heyrast að það sé ekkert hægt gera af því það liggi ekki fyrir greining. Það er bara ekki rétt. Það er bara nálgun sem við erum að vinna gegn. Börn sem eru hjá okkur fá þjónustu og við erum að sníða starfið og aðstæður að þeim.“

Of mikið fjármagn tengt greiningum 

Þjónusta við börn í leik- og grunnskólum og á frístundaheimilum sé nú þegar mjög mikil.

„Það er svo röng nálgun að segja að þau séu án þjónustu. Auðvitað er okkar fagfólk á vettvangi alltaf að veita eins góða þjónustu og nokkur kostur er,“ segir Helgi og heldur áfram:

„Í mínum huga er það sem skiptir mestu máli varðandi greiningar, að skólafólkið viti hvernig eigi betur að vinna með barninu. Evrópumiðstöð um menntun án aðgreiningar segir til dæmis að í íslenska menntakerfinu sé lögð of mikil áhersla á greiningar og of hátt hlutfall fjármögnunar í íslenska menntakerfinu er tengt greiningum, sem er allt önnur nálgun en þau myndu mæla með almennt til að nálgast verkefnið menntun án aðgreiningar.“

Skóli skólamál börn unglingar skólar grunnskóli grunnskólar grunnskólabörn nemendur grunnskólanemendur …
Skóli skólamál börn unglingar skólar grunnskóli grunnskólar grunnskólabörn nemendur grunnskólanemendur nemandi kennsla

Ekki til neitt sem heitir 100 prósent þjónusta

Helgi segir einnig að samkvæmt mati Evrópumiðstöðvarinnar séu nægir peningar í kerfinu, það þurfi bara að nota þá með markvissari hætti. Nota minna af fjármagni vegna greininga, meira í almennan stuðning við börnin. Veruleiki barna sé ólíkur og ekki megi steypa þau öll í sama mótið. „Það er ekki til neitt sem heitir 100 prósent þjónusta,“ segir hann.

„Þess vegna höfum við líka í reiknilíkani fyrir grunnskóla sömuleiðis breytt fjárveitingum, þannig við erum að veita fjármagni í breiðari stuðning heldur en akkúrat það sem er beintengt greiningum hjá tilteknu barni. Þar með erum við raun að undirstrika sveigjanleikann og það að við komum til móts við þarfir barna eins fljótt og kostur er og með eins lágum þröskuldi og hægt er,“ segir Helgi og vísar til hugtakanna lágþröskuldaþjónustu og snemmtækrar íhlutunar, sem höfð eru að leiðarljósi.

„Allt kerfið er í raun í þessa veruna að sveigja sig,“ bætir hann við.

Tryggja að kerfin vinni betur saman 

Lögin sem Anna Sigríður vísaði til í viðtalinu, þar sem er kveðið á um að börn eigi rétt á þjónustu þó greining liggi ekki fyrir, eru hin svokölluðu farsældarlög; lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem sett voru á Alþingi árið 2021.

„Þau eiga að tryggja að kerfin vinni betur saman, menntakerfið, félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið. Það mun skipta börnin í borginni og um allt land mjög miklu máli,“ segir Helgi.

Inn í það verkefni komi bæði barna- og fjölskyldustofa, sem heyrir undir ríkið, og stofnun X, sem er hin nýja menntamálastofnun sem enn hefur ekki fengið nafn. Helgi segir nú unnið að því með fólkinu á vettvangi að stilla verkefnið betur af.

Nálgun yfirlæknis svolítið klínísk 

Reykjavíkurborg hafi til að mynda nýlega haldið vinnusmiðju þar sem unnið var með stjórnendum og starfsfólki í leik- grunnskólum og frístundastarfi, ásamt fagfólki þjónustumiðstöðvanna; sálfræðingum, hegðunarrágjöfum og sérkennsluráðgjöfum, að því að fara í gegnum hvað þurfi að gera betur í kerfum borgarinnar til að koma betur til móts við börnin.

„Þannig það er heilmikið í gangi, en þessi nálgun að barn eigi rétt á einhverju, það eiga öll börn rétt á góðri menntun. Þessi nálgun yfirlæknis geðheilsumiðstöðvar barna, þetta er svolítið klínísk nálgun hjá henni í skólastarfi með börnum. Öll börn eru í grunnþjónustu sem eru leikskóli, grunnskóli og frístundastarf og við vinnum eins vel með þeim eins og kostur og aðstæður leyfa,“ segir Helgi.

„Svo geta bara komið upp litlar breytingar í lífi barna sem kalla á nýjar áskoranir hjá okkur. Eins og börn á einhverfurófi sem dæmi, það eru breytingar í þeirra fjölskyldulífi og breytinga á áhugamálum og breytingar sem við hjálpum barninu að vinna með í skólastarfinu.“

Gæðin mikil í mörgum skólum 

Þá bendir Helgi á að sérhæfð úrræði séu í boði fyrir börn sem eru með hvað mest hamlandi einkenni einhverfu og þurfi á hvað mestri þjónustu að halda. Þetta eru einhverfudeildir í hefðbundnum grunnskólum borgarinnar ásamt Arnarskóla, Brúarskóla og Klettaskóla.

Einnig sé mikil vinna unnin í samstarfi fjölskyldunnar við leik- og grunnskóla og það metið hvernig þjónusta hentar barninu.

„Við vitum líka að það er meiri aðsókn í einhverfudeildirnar en við getum sinnt. Þetta er líka spurning um hvers konar þjónustu foreldrar vilja. Gæðin í fjölmörgum grunnskólum í starfi með börnum á einhverfurófi eru mjög mikil, þó það séu bara almennir grunnskólar. Þess vegna erum við að leggja meiri áherslu á ráðgjöf til grunnskólana um starfshætti og starfsaðferðir, hvernig aðbúnað má veita barninu í almennu skólastarfi. Það skiptir svo miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert