„Ekki á minni vakt“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR efndi til mótmæla sem hófust …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR efndi til mótmæla sem hófust á Austurvelli klukkan 14 í dag. Samsett mynd

„Við erum að krefjast þess að stjórnvöld breyti sínum áherslum og setji fólkið í fyrsta sæti en ekki sérhagsmuni og atvinnulífið“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en hann ásamt fulltrúum Samtaka leigjenda og Hagsmunasamtaka heimilanna, boðaði til mótmæla á Austurvelli sem hófust klukkan 14 í dag.

Tilefni mótmælanna er vanræksla stjórnvalda gagnvart heimilum og fjölskyldum landsins í tíð gróðaverðbólgu og vaxtahækkana.

Frá mótmælunum rétt eftir að þau hófust.
Frá mótmælunum rétt eftir að þau hófust.

Áralöng vanræksla

„Við erum að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar gagnvart almenningi og heimilum landsins,“ segir Ragnar.

Hann segir stjórnvöld ítrekað halda því fram að allt sé í stakasta lagi hér á landi, þegar raunveruleikinn sé allt annar. Ragnar vitnar í könnun Vörðu um stöðu launafólks á íslenskum vinnumarkaði, en samkvæmt henni á helmingur launafólks í erfiðleikum með að ná endum saman.

„Við erum að mótmæla þessari áralöngu vanrækslu sem hefur verið hér bæði í heilbrigðiskerfinu, varðandi húsnæðismarkaðinn og sömuleiðis líka vaxtahækkunum Seðlabankans, sem eru í engu samræmi við það sem annars staðar þekkist.“

Mótmælendur höfðu útbúið skrautleg skilti.
Mótmælendur höfðu útbúið skrautleg skilti. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Hagnaður ævintýralegur en lífskjör aldrei verri

Ragnar segir mótmælin gera ákall um að loforð sem gefin voru í lífskjarasamningnum 2019 verði efnd, en það hafi ekki verið gert til þessa.  

„Við áttum að fá Tjarnarholtið til uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði, sem síðan var selt annað. Við kölluðum eftir leiguþaki, við kölluðum eftir aðgerðum vegna verðtryggingarinnar, sem hefði verið mótvægisaðgerð við það áhlaup sem var á fasteignamarkaðinum og fleiri þáttum eins húsnæðisvísitölu sem hefur keyrt hér áfram verðbólgu síðustu tvö árin.

Sömuleiðis líka að láta af frekari gjaldtöku af almenning þar sem fyrirtækjum og fjármálakerfinu er algjörlega hlíft, þar sem hagnaður hefur verið ævintýralegur en á meðan versna lífskjör hjá almenningi.“

Tilefni mótmælanna er vanræksla stjórnvalda gagnvart heimilum og fjölskyldum landsins.
Tilefni mótmælanna er vanræksla stjórnvalda gagnvart heimilum og fjölskyldum landsins. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Staðan mun versna

Ragnar kvaðst búast við góðri mætingu. Hann segir engan vafa liggja á að staðan muni versna enda hafi ríkistjórnin lokað eyrunum fyrir því sem þau hafi verið að benda á. 

Ríkistjórnin hafi ekki hlustað á verkalýðshreyfinguna til þessa og hafi vanefnt þá samninga sem gerðir voru og því mikilvægt að fólkið láti í sér heyra til að koma á breytingum í samfélaginu. 

Hann segir verkalýðshreyfinguna vera til staðar fyrir fólkið þegar það er tilbúið til að rísa upp til að gera eitthvað í málunum, ólíkt verkalýðshreyfingunni í bankahruninu sem að hans sögn lagðist alveg á hliðarlínuna. 

„Ég veit ekki með aðra formenn stéttarfélaga en það verður alla vega ekki á minni vakt“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert