Bjóst ekki við að Norðurlöndin myndu loka sínum sendiráðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á Ísafirði í dag.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á Ísafirði í dag. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Norðurlöndin eru okkar nánustu samstarfsríki og við vinnum náið saman á alþjóðasviðinu. Það fór talsverður tími í að ræða praktísk atriði þar að lútandi,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að loknum fundi norrænu utanríkisráðherranna sem fram fór á Ísafirði í dag.

Ísland er í forsvari fyrir norræna samvinnu í ár, þar á meðal í utanríkispólitísku samstarfi og fór því árlegur sumarfundur ráðherranna fram hér á landi.

„Við þurfum ekki að eyða löngum tíma í að ræða helstu áherslumál okkar, enda erum við sammála um þau. Það er spurning hvað við getum gert til þess að gera gagn og vinna mál áfram, koma sameinuð fram og til að mynda gagnvart ákveðnum verkefnum sem eru fjær okkur, þá eru Norðurlöndin sameiginlega með meira vægi en ef við værum að gera hlutina hvert okkar upp á eign spýtur,“ sagði Þórdís Kolbrún.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/06/13/aetla_ekki_ad_loka_sendiradi_sinu_i_russlandi/

Málefni Úkraínu og Afganistan standa upp úr

„Það sem almennt stendur upp úr að þessum fundi loknum eru málefni Úkraínu, Afganistan, einnig samskiptin við Kína, ríki í Afríku og Mið-Austurlöndum sem við þurfum að sinna vel. Við erum bæði með pólitísk tengsl, þróunarsamvinnu og annað sem við berum ábyrgð á að halda vel utan um, vegna þess að það er sameiginlegt verkefni að standa vörð um alþjóðakerfið.

Nú ætla hin Norðurlöndin ekki að loka sendiráðum sínum í Rússlandi eins og Íslendingar hafa gert. Hefur þú skoðun á því?

„Nei, ég gerði ekki ráð fyrir því að þau væru í þann mund að leggja niður sína starfsemi í Rússlandi, þótt við gerðum það. Þau hafa hins vegar minnkað umsvifin og einnig sent starfsfólk rússnesku sendiráðanna heim af gildum ástæðum á meðan við höfðum enga slíka ákvörðun tekið. Það mætti spyrja sig hvers vegna Ísland hefði ekki ekki haft ástæðu til að gera það sama og löndin í kringum okkur höfðu ástæðu til að gera?“ sagði Þórdís Kolbrún.

Eru ekki að slíta stjórnmálasambandi við Rússland

„Ég hef verið spurð um það síðastliðið eitt og hálft ár, hvers vegna við værum ekki að senda neina starfsmenn rússneska sendiráðsins heim eins og þau. Ég hef þá bent á að það mál þyrfti að hugsa til enda og að taka með í myndina að slíkar ákvarðanir hefðu aðrar afleiðingar fyrir okkur en fyrir nágrannaríkin. Ef við hefðum sent nokkra Rússa heim og rússnesk stjórnvöld svarað í sömu mynt, eins og venjan er, þá hefði það haft aðrar afleiðingar fyrir sendiráð okkar í Moskvu en sendiráð hinna Norðurlandanna vegna þess að við erum svo fá, erum aðeins með tvo diplómata og örfáa starfsmenn.

Ég ítreka þó að við erum alls ekki að slíta stjórnmálasambandi við Rússland. Það verða áfram diplómatísk samskipti okkar á milli og við erum ekki að loka sendiráðinu, heldur að leggja niður starfsemi þess. Verkefnin eru þess eðlis að forsendur fyrir starfsemi sendiráðsins eru ekki lengur til staðar,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Nágrannaríkin í betri færum en við

Nú hefur gjarnan fylgt sögunni þegar rússneskum sendiráðsstarfsmönnum í nágrannalöndunum er vísað úr landi, að störf þeirra hafi ekki samrýmst diplómatískri stöðu þeirra. Liggja slíkar ástæður að baki ákvörðun Íslands?

„Með þessari ákvörðun erum við í raun að kalla eftir gagnkvæmni, en ég bendi á að nágrannaríkin eru í mun betri færum en við til að átta sig á því hvað kann að vera í gangi í sínum löndum hvað þetta varðar.“

Mikil ábyrgð að halda uppi eftirliti

Nú komst svokallað lögreglufrumvarp ekki í gegnum Alþingi fyrir þinglok, en hefði það orðið að lögum hefði það mögulega getað aukið möguleika lögreglunnar til að rannsaka slík mál betur en nú er hægt. Eru örlög þess frumvarps að einhverju leyti ástæða þess að ákveðið var að loka sendiráð okkar í Moskvu og senda rússneska diplómata heim?

„Ég myndi segja að það væru ekki bein tengst á milli þessara atriða, en ég get sagt þá skoðun mína að ég tel mikilvægt að lögreglan hafi þau verkfæri sem hún þarf til þess að geta unnið sína vinnu. Ábyrgð okkar er mikil að vanda til verka í því að hafa aðhald og halda uppi eftirliti. En það sem við vitum varðandi þessa hluti annarsstaðar, þá þarf að hugsa það hvað þetta þýðir fyrir okkur hér,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þannig að samþykkt frumvarpsins hefði auðveldað okkur að hafa viðunandi eftirlit með starfsemi þeirra hér á landi, sem e.t.v. er ekki hefðbundin starfsemi diplómata?

„Með þeim breytingum sem frumvarpið mælti fyrir um, hefði að sögn lögreglunnar sjálfrar hún verið betur í stakk búin en í dag, til að sinna sínu hlutverki þegar kemur að ýmsum flóknum þjóðaröryggismálum,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert