Landsrétt skorti lagastoð til refsihækkunar

Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti …
Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti í lok október 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur mildaði umtalsvert dóm Landsréttar í Rauðagerðismálinu. Telur hann lagastoð hafa vantað til refsihækkunar til þyngingar dóms héraðsdóms. Er refsing sumra sakborninga minnkuð um meira en tíu ár. 

Í dómi réttarins kemur fram að þau lagaákvæði sem heimila refsingu hærri en 16 ár hafi ekki verið til staðar í þessu máli. Slík brot teljast til dæmis brot gegn forseta eða handhafa forsetavalds eða gegn sendimönnum erlendra ríkja á Íslandi.

Hafnar skýringum Angjelins

Einnig er tekið fram að Angjelin er sakfelldur fyrir eitt manndráp en ekki önnur brot. Dómurinn nefnir að það sérstaklega til merkis um að frekari ástæður skorti til refsihækkunar.

Hins vegar fellst Hæstiréttur ekki á skýringar Angjelins að nauðvörn eða ofsahræðsla hafi orðið til þess að hann hafi ekki verið fullkomlega ábyrgur gjörða sinna. Sú skýring var ekki tekin gild til refsilækkunar. Niðurstaðan er því sú að Angjelin skal sitja 16 ár í fangelsi.

Umtalsvert vægari refsingar

Hæstiréttur tók líka fyrir refsingu annarra vitorðsmanna, þeirra Claudiu Sofiu Coel­ho Car­val­ho, Murats Selivrada og Shpetim Qerimi. Öll voru þau dæmd til 14 ára fangelsisvistar í Landrétti, fyrir hlutdeild í manndrápi.

Hæstiréttur telur hlut Shpetim alvarlegastan, þar sem hann hafi verið bílstjóri Angjelins, aðstoðað hann við að sitja fyrir fórnarlambinu og keyrt Angjelin norður í land að glæp loknum. Hann telst hlutdeildarmaður í broti, en hlýtur mildari refsingu en aðalmaður glæpsins. Þótti hæfileg refsing vera tíu ára fangelsi.

Miklu munar fyrir Claudiu og Murat

Hæstiréttur segir Murat átt smávægilegan þátt í mjög alvarlegu broti. Hann hafi tekið þátt í undirbúningi atburðarrásarinnar sem leiddi til dauða Arm­ando Beqirai. Hæfileg refsing fyrir Murat þykir fjögurra ára fangelsi.

Sömuleiðis er Claudia dæmd fyrir að eiga litla hlutdeild í alvarlegum glæp og er dæmd til þriggja ára fangelsis.

Athygli vakti fyrr á árinu þegar ríkissaksóknari sagði opinberlega að hún teldi að Landsrétt hafi skort lagaheimildir til að þyngja refsingar í Rauðagerðismálinu. Virðist dómur Hæstaréttar staðfesta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert