Mátti dæma Sterkaj í 20 ára fangelsi?

Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti …
Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti í lok október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissaksóknari telur mikilvægt að Hæstiréttur fjalli um það hvort Landsréttur hafi mátt dæma Angjelin Sterkaj til þyngri refsingar en 16 ára fangelsisvistar í Rauðagerðismálinu. Ríkissaksóknari telur að lagaheimild hafi hugsanlega skort.

Þetta kemur fram í umfjöllun um málið á vef RÚV.

Þá telur ríkissaksóknari rétt að Hæstiréttur verði við áfrýjunarbeiðni sakborninganna fjögurra í málinu, en í lok október þyngdi Lands­rétt­ur dóm héraðsdóms yfir Angj­el­in Sterkaj auk þess að sak­fella þrjú önn­ur sem héraðsdóm­ur hafði áður sýknað.

Sterkaj, sem var sá eini sem játaði sök, var þá dæmd­ur í 20 ára fang­elsi fyr­ir að hafa orðið Arm­ando Beqirai að bana við heim­ili sitt í Rauðagerði í Reykja­vík í fyrra. Þau Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Murat Selivrada sem voru sýknuð af kröf­um ákæru­valds­ins í héraðdómi voru öll dæmd í 14 ára fang­elsi. 

Fram kemur í umfjöllun RÚV, að ríkissaksóknari telji að hugsanlega hafi skort lagaheimild til að dæma Sterkaj til að sæta þyngri refsingu en 16 ára fangelsi. Heimilt sé að dæma fangelsi allt að 20 árum við tilteknar lögákveðnar aðstæður sem embættið telur vafa leika á að hafi verið fyrir hendi í málinu.

 

mbl.is