Spyr forstjóra hvað sé spennandi við „Bonaqua“

Eiríkur Rögnvaldssson og Anna Regína Björnsdóttir.
Eiríkur Rögnvaldssson og Anna Regína Björnsdóttir.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðarsinni hefur sent forstjóra Coca Cola European partners bréf þar sem hann spyr hvað sé spennandi við að breyta nafni á sódavatnsdrykknum Toppi fyrir Bonaqua. 

Vísar Eiríkur þar til orða Önnu Regínu Björns­dótt­ur forstjóra fyrirtækisins sem sagði frá því í tilkynningu að nafnabreytingin væri „spennandi.“  

Telur Eiríkur svona breytingar veikja viðnámsþrótt íslenskunnar. 

„Kannski finnst íslenskum neytendum þetta spennandi en þá þurfum við að hugsa okkar gang. Fyrirtækið er erlent og það getur vel verið að það fyrirtæki vilji gera þetta og íslenska umboðsfyrirtækið ráði engu um það. En þá á ekki að klæða þetta í þann búning að þetta sé spennandi,“ segir Eiríkur. 

Toppur mun heita Bonaqua
Toppur mun heita Bonaqua

Eruð að vinna gegn íslenskunni

Eiríkur sendi Önnu erindi í dag þar sem hann tekur til málsvarna fyrir tungumálið. Bendir hann á að ekkert breytist í vörunni nema nafnið og spyr hvort það sé spennandi. 

Langar mig að spyrja hvort þér finnist það virkilega „spennandi breyting“ fyrir íslenska neytendur að skipta íslensku heiti út fyrir erlent. Íslenskan á undir högg að sækja. Sífellt fleiri vörur, verslanir, veitingastaðir o.fl. taka upp erlend heiti og íslenskum heitum fækkar að sama skapi. Þetta stuðlar að því að veikja varnir íslenskunnar og gera okkur ónæmari fyrir enskunni. Dropinn holar steininn, og með þessari nafnbreytingu eruð þið því miður að vinna gegn íslenskunni,“ segir í bréfi Eiríks.  

Ekki endalaust hægt að hrúga inn enskunni

Eiríkur segir ekki endalaust hægt að hrúga ensku inn í tungumálið án þess að það hafi áhrif. 

„Auðvitað er eitt og eitt nafn ekkert stórkostlega alvarlegt og jafnvel tíðkast að verslanir hafi erlend nöfn. En dropinn holar steininn og stuðlar að því við verðum ónæmari fyrir enskunni og okkur finnst orðið eðlilegt að hlutir heiti enskum nöfnum. Það veikir viðnámsþrótt íslenskunnar og er vond þróun,“ segir Eiríkur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert