Ekki skemmt yfir viðbrögðum stjórnarliða

Njáll Trausti Friðbertsson segir nokkur erfið mál vera fram undan …
Njáll Trausti Friðbertsson segir nokkur erfið mál vera fram undan hjá ríkisstjórninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að erfiðast sé að ná saman um orkumálin, útlendingamálin og hvalveiðimálið í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Hann segir þó mjög mismunandi skoðanir vera á því meðal flokksmanna hvað gera skuli með samstarfið.

Þó að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu ekki endilega allir á sáttir með störf ríkisstjórnarinnar er það fjarri því lagi að vera svo að allir vilji slíta henni að sögn Njáls. Fólk skilji ringulreiðina sem því fylgi að vera með átta flokka á þingi og margir óttist að þeim gæti fjölgað ef kosið yrði núna.

Gagnrýnin réttmæt

Þingmenn og flokksmenn hafa gagnrýnt ríkisstjórnarsamstarfið síðustu daga. Á sú gagnrýni rétt á sér?

„Klárlega. Flækjustigið er bara mjög mikið í þriggja flokka stjórn og þetta er erfiður leikur. Ég heyri samt í mínu umhverfi, og ég er búinn að ræða við mjög marga, að það er beggja blands hvernig fólk talar um þessa hluti. Sumir segjast vilja ná sátt í núverandi stjórn og aðrir vilja eitthvað annað.“

Þurfa að taka til hendinni

Hann segir nokkur mál hafa farið illa í hann undanfarið en þar megi til dæmis nefna stjórnsýsluna á bak við ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra þegar hún bannaði hvalveiðar tímabundið.

„Það sem hefur farið verst í mig eru orkumálin. Mér þótti það óþægilegt þegar hlakkaði í einstaka þingmönnum Vinstri Grænna þegar virkjunarleyfið fyrir Hvammsvirkjun var fellt úr gildi. Þá var mér ekki skemmt og greinilega himinn og haf á milli okkar,“ segir hann og bætir við:

„Ef það er einhver alvara á bak við það að ná fram markmiðum um rafvæðingu landsins í tengslum við orkuskiptin þá þurfum við heldur betur að taka til hendinni.“

Ekki mikill áhugi á þinginu fyrir orkumálunum

En er ríkisstjórnin að fara að ná saman um orkumálin?

„Ég bara veit það ekki. Í þinginu virðist ekki vera nægur áhugi á þessu stóra máli en þarna eru grundvallarhagsmunir okkar í húfi. Þetta hefur svakaleg áhrif á efnahaginn okkar, samkeppnishæfni okkar og lífskjör Íslendinga.“

Hann segir útlendingamálin einnig vera stórmál sem ekki virðist ætla að nást sátt um. Þróunin í málaflokknum sé mjög slæm.

„Innflytjendamálin eru risa mál og við í fjárlaganefnd höfum séð hvernig þróunin er búin að vera síðustu ár. Þetta getur ekki gengið svona lengur og við hljótum að fara að líta til nágrannalanda okkar. Við getum ekki verið með opinn krana hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert