„Gengur ekki svona áfram“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að margt þurfi að breytast …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að margt þurfi að breytast í stefnu ríkisstjórnarinnar. Samsett mynd

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir í samtali við mbl.is að margir hægrimenn séu farnir að túlka það sem svo að ríkisstjórnin sé lítið annað en samstaða um kyrrstöðu og við það sé ekki lengur unað.

Hann tekur þó ekki undir áhyggjur Brynjars Níelssonar sem sagði í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að raunveruleg hætta væri á klofningsframboði.

Er mikil undiralda meðal Sjálfstæðismanna um að nú þurfi að endurskoða ríkisstjórnarsamstarfið?

„Ég upplifi Sjálfstæðisflokkinn almennt ekki þannig að það séu undiröldur í honum. Þetta er bara alda og hún er á yfirborðinu. Það er enginn feluleikur í kringum þetta,“ segir Elliði.

Það hafi alltaf legið fyrir, við myndun þessarar ríkisstjórnar, að samstarfið yrði hlaðið málamiðlunum en að nú virðist sem svo að þær séu um of.

„Mörgum okkar finnst að málamiðlanirnar þurfi í það minnsta að styðjast við stjórnsýslureglur og almennar leikreglur í pólitík, að stjórnarsáttmálinn myndi fá  ráða en ekki geðþóttaákvarðanir,“ segir Elliði og bætir því að hann sé ekki bara að vísa í tímabundið hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Sjálfstæðismenn vilji fylgja fastar eftir í orkumálum, innflytjendamálum og fleiri málaflokkum.

Elliði segir að það sé nóg af góðu fólki í …
Elliði segir að það sé nóg af góðu fólki í öllum flokkum en að nú þurfi ríkisstjórnarflokkarnir að gera það upp við sig hvert skuli haldið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanti borgaralegu gildin

„Ég tel að mörgum hægrimönnum í landinu finnist vanta þessi borgaralegu gildi, virðingu fyrir hornsteinum samfélagsins og uppbygging á því sem við teljum að verði næstu framfaraskref fyrir þjóðina,“ segir Elliði og bætir því við að hann telji að mörgum finnist sem þessi ríkisstjórn, í ljósi þess hvernig hún sé samsett, sé farin að bitna á Íslendingum.

„Það er ekki akút mál að slíta þessari ríkisstjórn, hún hefur staðið í sex ár og margt tekist mjög vel, en það er hins vegar akút mál að hún átti sig á því hver staðan er. Í mínum huga þá gengur þetta ekki svona áfram.“

Elliði segir að það sé nóg af góðu fólki í öllum flokkum en að nú þurfi ríkisstjórnarflokkarnir að gera það upp við sig hvert skuli haldið.

„Ætla þeir að koma sér saman um að vinna að framfaramálum eða halda áfram kyrrstöðu um ekki neitt? Ef svarið er kyrrstaða um ekki neitt þá er þessu langtum betur lokið en áfram haldið.“

Ekki sammála Brynjari

Brynjar Níelsson sagði í viðtali við Morgunblaðið að nú væri komin hætta á því að flokkurinn myndi klofna. Elliði tekur ekki undir þær áhyggjur.

„Nei, ég tek ekki undir það og er þvert á móti mjög ósammála. Ég loka ekkert augunum fyrir þeim möguleika en ég tel það alls ekki yfirvofandi. Það sem mér finnst yfirvofandi er þörf á því að borgaralega þenkjandi fólk og framfaraþenkjandi fólk fari að þjappa sér saman um þau gildi sem við höfum séð að skila árangri fyrir þjóðina í gegnum tíðina,“ segir Elliði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert