Stefna ríkinu og kaupanda hússins í Reykjanesbæ

Húsið er verðmetið á 57 milljónir en var selt á …
Húsið er verðmetið á 57 milljónir en var selt á uppboði á 3 milljónir. mbl.is

Öryrkjabandalagið (ÖBÍ) hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna nauðungaruppboðs á húsi í Reykjanesbæ í sumar, sem seldist langt undir markaðsvirði, og jafnframt kaupanda þess.

RÚV greindi fyrst frá en Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, staðfestir þetta við mbl.is.

Eigandinn, Jakup Polkowski, sem er öryrki, var borinn út ásamt fjölskyldu sinni og býr nú í félagslegu húsnæði í Reykjanesbæ.

Ákvörðun um stefnuna var tekin á stjórnarfundi ÖBÍ í gær, en Þuríður veit ekki til þess að málið eigi sér neitt fordæmi.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Naut ekki réttarverndar

Húsið fór á uppboð vegna 2,5 milljón króna skuldar Jakups, en hann hafði ekki greitt reikninga vegna vatns, trygginga og fasteignagjalda um tíma. Húsið er verðmetið á 57 milljónir króna í dag, en seldist á 3 milljónir á uppboðinu.

„Okkur sýnist það alveg ljóst, og það virðist vera þannig, að viðkomandi einstaklingur hafi ekki notið þeirrar réttarverndar sem hann hefði átt að njóta sem fatlaður einstaklingur. Sýslumaður virðist ekki hafa tryggt hagsmuni hans. Um það snýst málið,“ segir Þuríður samtali við mbl.is, um stefnuna sem hún gerir ráð fyrir að verði birt á næstu dögum.

Jakup, sem keypti húsið fyrir bætur sem hann fékk vegna alvarlegra læknamistaka fyrir nokkrum árum, hefur sagt í viðtölum að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að greiða þyrfti gjöld af húsi sem hann átti skuldlaust.

„Það hlýtur einhver að hafa átt að tryggja hagsmuni viðkomandi einstaklings ef hann gat ekki gert það sjálfur, sem er alveg ljóst að hann gat ekki gert. Því ef hann hefði getað það þá hefði hann ekki lent í þessum aðstæðum,“ segir Þuríður.

„Þetta er svo ósanngjarnt“

Hún telur að sýslumaður hefði allan tímann geta stöðvað uppboðið og komið í veg fyrir að þetta yrði niðurstaðan.

„Það er svo grátlegt að þetta hafi verið gert og að það sé hægt að gera svona hérna. Sama hver á í hlut. Að fatlaðir einstaklingar sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér skuli lenda í svona aðstæðum. Og svo að einhver hafi geð í sér að kaupa á svona undirverði,“ segir Þuríður.

„Þetta er svo ósanngjarnt sem mest getur verið verið. Það verður einhvern veginn að koma veg fyrir að svona gerist og það stendur okkur næst að reyna að sporna við því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert