Jakob og fjölskylda flutt í félagslega íbúð

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, staðfestir að fjölskyldan sé nú …
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, staðfestir að fjölskyldan sé nú flutt í félagslega íbúð. Samsett mynd

Jakub Pol­kowski, ung­ur ör­yrki sem missti heim­ili sitt á nauðung­ar­upp­boði í Reykja­nes­bæ í júní, hefur verið fluttur ásamt fjölskyldu sinni í félagslega íbúð á vegum bæjarins. Mál Jakubs verður tekið fyrir af Öryrkjabandalagi Íslands í næstu viku. 

Vísir greindi fyrst frá.  

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, staðfestir í samtali við mbl.is að flutningarnir hafi gengið í gegn 3. ágúst síðastliðinn. 

„Jakub var fluttur í félagslega íbúð. Við höfum verið í miklum samskiptum og það er allt í góðu,“ segir Friðjón. 

Hann segir mögulegt að Öryrkjabandalagið taki það til skoðunar hvort rétt hafi verið af sýslumanni að samþykkja það verð sem boðið var í húsið.

Fjölskyldan fékk mánaðarfyrirvara

„Uppboðið fór rétt fram, en það er spurning hvort það hafi verið í lagi að taka þessu tilboði vegna þess að það var svo lágt. Þetta snýst þess vegna um það hvort sýslumaður hefði átt að segja að þetta væri ófullnægjandi boð og reynt að finna aðrar lausnir,“ segir Friðjón. 

Friðjón segir fjölskylduna hafa fengið mánaðarfyrirvara til þess að flytja brott. „Kaupandinn hélt húsinu og hefur ekki viljað vera til viðtals um að breyta því eða falla frá sínu. Þess vegna þurftu þeir að yfirgefa húsnæðið. Kaupandinn gaf þeim mánaðarfyrirvara til þess að flytja út úr húsinu, lengdi svo tímann en nú er fjölskyldan flutt í félagslegt húsnæði hjá bænum,“ segir Friðjón loks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert