Tiger byrjaði vel á meistaramótinu

Tiger Woods fylgist með á Valhalla í kvöld ásamt aðstoðarmanni …
Tiger Woods fylgist með á Valhalla í kvöld ásamt aðstoðarmanni sínum. AFP/Patrick Smith

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods fór ágætlega af stað og lék á 72 höggum á fyrsta keppnisdegi PGA-meistaramótsins í golfi í dag.

Mótið er annað risamótið af fjórum á árinu hjá körlunum og fer að þessu sinni fram á Valhalla-vellinum í Kentucky í Bandaríkjunum. Þar fór mótið síðast fram fyrir áratug síðan og þá sigraði Rory McIlroy en hann hefur ekki unnið risamót síðan. McIlroy byrjaði afar vel í dag og lék á 66 höggum.

Tiger er á höggi yfir pari og slæmu tíðindin fyrir fjölmarga aðdáendur Tigers hér á landi er þau að skorið var býsna gott í dag. Margir kylfingar eru reyndar úti á velli en útlit er fyrir að Tiger þurfi að gera betur á morgun til að komast áfram eftir 36 holur.

Tiger lék síðast á Masters í síðasta mánuði en hann velur örfá mót á ári núorðið enda annar fóturinn illa farinn eftir alvarlegt bílslys.

Met hjá Schauffele

Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele er efstur eftir stórkostlegan hring. Lék hann á 62 höggum og tók afgerandi forystu á sex undir pari. Hann setti með því vallarmet á Vahalla, og jafnaði um leið besta hringinn á stórmóti í golfi í annað sinn. Fjórum sinnum í sögu stórmótanna hefur hringur verið leikinn á 62 höggum, Schauffele hefur nú leikið það afrek tvö ár í röð, Rickie Fowler gerði það einnig á síðasta ári og Brendan Grace árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert