Íslandsmeistari missti dóttur sína í mars

Frank Aron Booker stýrir fjöldasöng í leikslok á Hlíðarenda í …
Frank Aron Booker stýrir fjöldasöng í leikslok á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er eins og draumur,“ sagði Frank Aron Booker leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari karla í körfubolta með sigri á Grindavík í oddaleik í kvöld. Valur var þriðja árið í röð í oddaleik á heimavelli í kvöld og var Aron í liðinu er það tapaði fyrir Tindastóli fyrir ári.

„Ég er búinn að bíða eftir þessu í heilt ár eftir tapið í fyrra. Þetta er miklu betra en ég hélt þetta myndi vera, að verða Íslandsmeistari með þessum strákum og þessu félagi. Ég get ekki lýst þessari tilfinningu.

Þetta er milljón sinnum sætara eftir leikinn í fyrra. Við gerðum gríðarlega vel að halda haus í oddaleik eftir að Kristófer meiðist. Þetta er stærsti leikmaðurinn og þegar hann meiddist vorum við staðráðnir í að gera þetta saman. Taiwo var svo klikkaður allan leikinn,“ sagði Frank Aron.

Kristófer Acox meiddist strax í upphafi leiks og Aroni leist ekki á blikuna. „Það fyrsta sem ég hugsaði var „fokk.“ Ég hélt fyrst að hann hafi rekið höfuðið í skiltið og svo talaði ég við hann og hann sagði að þetta væri búið. Þá ákváðum við strákarnir að gera þetta saman fyrir Kristó.“

Árið hjá Aroni hefur verið gríðarlega erfitt því hann missti barnunga dóttur sína í mars.

„Ég ætla að vera með konunni minni í kvöld, hún er búin að vera æðisleg og stutt mig allan tímann. Þetta er búið að vera mjög erfitt ár fyrir mig og konuna mína. Við misstum barnið okkar 15. mars, Natalíu Ósk Booker.

Við erum búin að vera að berjast við það. Jarðarförin var 13. maí. Ég hef reynt að hjálpa liðinu eins og ég get og gert allt mitt. Ég gerði þetta fyrir hana, konuna mína og þetta félag,“ sagði Frank Aron.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka