Jakob Frímann: Hættum að skattleggja fátækt fólk

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins.
Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Árni Sæberg

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, sagði í ræðu sinin á Alþingi fyrr í kvöld að það væri „stærsti smánarbletturinn á íslensku samfélagi“ að um 10% landsmanna byggju við örbirgð. Segir hann að láta þurfi af því að skattleggja fátækt fólk.

„Þó hér sé fyrst og fremst um að ræða aldraða og öryrkja verður ekki litið fram hjá þeim sem eru hreinlega hlekkjaðir í óviðunandi fátækt og í þessum hópi fjölgar hér því miður frá ári til árs,“ sagði Jakob.

„Þessu verðum við að breyta.“

„Fullkomlega gerlegt“

Jakob bætti því við að það væri stærsta áskorun landsmanna að stemma stigu við fátækt hérlendis. Það muni kosta um 35 milljarða króna, samkvæmt útreikningum sem gerðir voru með hjálp sérfræðinga, „að færa þessa óhæfu til viðunandi vegar“.

Telur hann að það því vera fullkomlega gerlegt í fjárlögum upp á 1.400 milljarða.

„Vilji er allt sem þarf og slíkur vilji er sannarlega til staðar hjá þorra landsmanna og eftir því sem best verður séð og einnig hjá þorra aðspurðra þingmanna og ráðherra,“ sagði Jakob.

„Að sjálfsögðu ber okkur að láta af því að skattleggja fátækt fólk, okkur ber að setja velferð fólksins okkar í fyrirrúm, nú á mestu uppgangs og velmegunartímum Íslandssögunnar. Koma svo!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert