Eru fjölmiðlar að fjalla um það sem skiptir máli?

Ingibjörg Þórðardóttir, fyrrum framkvæmdarstjóri hjá CNN og aðalritstjóri hjá BBC.
Ingibjörg Þórðardóttir, fyrrum framkvæmdarstjóri hjá CNN og aðalritstjóri hjá BBC. Skjáskot/Rúv

Hvernig fá fjölmiðlar lesendur til þess að smella á fréttirnar sínar og hvort er mikilvægara að lesendur fái réttar upplýsingar eða fréttamiðlar fleiri smelli. Fjölmiðlar standa frammi fyrir gríðarlegum breytingum og því er mikilvægt að þeir hugi að hlutverki sínu, sérstaklega innan lýðræðisríkja þar sem gerð er krafa um að fólk hafi aðgang að góðum og vel unnum fréttum. 

Þetta er meðal þess sem fjölmiðlakonan Ingibjörg Þórðardóttir fjallaði um á Útvarpsþingi Ríkisútvarpsins, sem haldið var í Útvarpshúsinu í morgun. Yfirskrift þingsins var Rúv í samfélaginu og var umræðuefnið fjölmiðlun í almannaþágu, samfélag og lýðræðisþróun.

Ingibjörg á langan fjölmiðlaferil að baki. Hún er meðal annars fyrrum framkvæmdarstjóri hjá CNN og aðalritstjóri hjá BBC. Nú situr hún í stjórn tveggja fjölmiðlafyrirtækja, annars vegar í Bandaríkjunum og hins vegar í Bretlandi, auk þess að vera framkvæmdastjóri þróunar og umbótasviðs hjá Skating Panda. Þá situr hún jafnframt í stjórn breska háskólans Central Lancashire sem stendur fyrir verkefninu News futures 2035, sem hún kynnti á þinginu. Verkefnið fjallar um það hvernig hægt er að tryggja aðgengi almennings að áreiðanlegum fréttum og hvernig það tengist lýðræðishlutverki fjölmiðla.

Auk hennar komu fram þau Liz Corbin, yfirmaður fréttamála hjá EBU, og Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor í fjölmiðlafræði við HÍ. Corbin fjallaði um ábyrgð fjölmiðla í almannaþágu á tímum upplýsingaóreiðu, minnkandi áhuga fólks á fréttum og hugsanleg áhrif gervigreindar á upplýsingaveitu til almennings. Jón fjallaði um stöðu mála í upplýsingaheiminum með tilliti til lýðræðisumræðu, samfélagsmiðla og gervigreindar.

„Mjög bjartsýn á að þetta sé ekki deyjandi stétt

Að þinginu loknu ræddi mbl.is við Ingibjörgu. Spurð um stöðu fjölmiðla og hvort um sé að ræða deyjandi stétt, líkt og stundum er fjallað um, segir hún svo alls ekki vera.

„Við erum stétt sem stendur frammi fyrir gríðarlegum breytingum þessa stundina. Við þurfum að leiða hugann að því hvert okkar hlutverk sé, sérstaklega innan lýðræðisríkja þar sem gerð er krafa um að fólk hafi aðgang að góðum og vel unnum fréttum sem hjálpa fólki að verða betri þegnar,“ segir Ingibjörg og leggur áherslu á að fréttaflutningur sé grundvallarréttur fólks.

„Þannig að ég er mjög bjartsýn á að þetta sé ekki deyjandi stétt, en ef við erum ekki tilbúin til að taka þátt í breytingunum, þá gæti farið illa. Ekki einungis fyrir stéttinni heldur fyrir öllu samfélaginu og held að það sé ekki gott,“ segir Ingibjörg og bætir við að fjölmiðlar þurfi að staldra við og velta fyrir sér hvað það sé sem er mikilvægt fyrir stéttina.

Ingibjörg segir mikilvægt fyrir fjölmiðla að skilja að það sé ekki endilega þeirra hlutverk að fá sem flesta smelli á fréttir, heldur sé það þeirra hlutverk að búa til skipulag í þeirri óreiðu sem er að finna á alnetinu.

„Ef við gerum það vel þá verða fréttirnar mikilvægari en nokkru sinni fyrr og þá leitar fólk frekar eftir fréttum frá miðlinum. Kannski leitar fólk ekki á fréttamiðla af því að það er ekki að fá þær upplýsingar sem það þarf. Ekki að fá þann skilning sem það leitast eftir og ekki að fá upplýsingarnar matreiddar á þann hátt sem það kýs. Kannski erum við ekki að fjalla almennilega um það sem skiptir máli.“

Mikilvægt að setja hlutina í samhengi 

Eftir að Ingibjörg fór að starfa meira í stjórnun fjölmiðlafyrirtækja, en ekki innan fréttastofu, segist hún hafa tekið betur eftir mikilvægi þess að fjölmiðlafólk byggi upp þekkingu til að skilja upplýsingarnar sem það er að miðla frá sér. Skilja hvaða upplýsingar eru villandi, hvaða upplýsingar eru rangar og hvað séu falsfréttir.

„Skilji loftslagsbreytingar,“ segir hún og bætir við: „Ef við byggjum ekki upp þessa þekkingu hægt og rólega þá mun fólk ekki geta tekið réttar ákvarðanir, eða metið hvað sé rétt og hvað sé rangt.“

Þá leggur hún áherslu á að stundum þurfi fjölmiðlafólk að taka skref aftur á bak þegar fjallað er um flókin málefni. Það sé ekki alltaf nóg að setja einungis fram þrjár til fjórar setningar um meginatriði málsins og leggja síðan áherslu á mismunandi sjónarmið fólks. Heldur þurfi að upplýsa lesendur og jafnvel leiðbeina þeim um hvar megi nálgast frekari upplýsingar um málefnið, til þess að lesendur átti sig á megin atriðum málsins og geti myndað sér eigin skoðun. 

„Setja hlutina í samhengi. Það er ekki nóg að fjalla einungis um einstaka tré í skóginum, við verðum að sýna að þetta sé skógur,“ segir Ingibjörg og vitnar í samlíkingu Boga Ágústssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins, frá fundinum.

Fréttir þurfa ekki alltaf að vera skemmtilegar 

Ingibjörg segir fréttir ekki alltaf þurfa að vera skemmtilegar, heldur þurfi þær að vera upplýsandi til þess að almenningur sé rétt upplýstur og geti myndað sér skoðun. Í því samhengi leggur hún áherslu á fjölmiðlar vinni með samfélaginu í heild, eða ákveðnum hópum innan samfélagsins og stjórnvöldum.

Hún telur mikilvægt að þessir hópar vinni saman og skilji að í lýðræðisríki beri þeir ábyrgð á að upplýsingar sem fara til almennings séu réttar og góðar. „Að þetta séu þær upplýsingar sem skipta mestu máli.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert