Boðar skattaafslátt fyrir áskrifendur að fjölmiðlum

Lilja segir nauðsynlegt að tryggja gæða fjölmiðlun hér á landi.
Lilja segir nauðsynlegt að tryggja gæða fjölmiðlun hér á landi. mbl.is/Eyþór

Lilja Alfreðsdóttir, ferða-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, boðaði skattaafslátt fyrir þá sem gerast áskrifendur að fjölmiðlum í ræðu sinni á Útvarpsþingi Ríkisútvarpsins, sem fram fór í Útvarpshúsinu í dag.

Ríkisútvarpið stóð fyrir útvarpsþingi í morgun undir yfirskriftinni Rúv í samfélaginu og var umræðuefnið fjölmiðlun í almannaþágu, samfélag og lýðræðisþróun. Lilja flutti ræðu í upphafi þingsins þar sem hún fjallaði meðal annars um framtíð fjölmiðla og áskoranir þeirra.

Nauðsynlegt að tryggja gæða fjölmiðlun

Hún sagði mikilvægt að styðja við „ritstýrða alvöru fjölmiðla, til þess að gera meiri greinarmun á því sem er byggt á þekkingu, staðreyndum og hins vegar skoðunum.“

„Það er hlutverk okkar og hlutverk þeirra sem eru í fjölmiðlum að taka þetta skrefinu lengra, vegna þess að áhrifin á lýðræðið og lýðræðislega þátttöku getur ger breyst ef við pössum ekki upp á fjölmiðla og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að við séum með gæða fjölmiðlun, eins og hún gerist best.“

„Skattalegt hvatakerfi“

Þá sagði Lilja að stjórnvöld hefðu staðið við það að tryggja sterkt ríkisútvarp hér á landi. Auk þess hefðu stjórnvöld styrkt við einkarekna fjölmiðla með styrkjakerfi, sem hún telur hafa verið mikilvægt miðað við þær áskoranir sem fjölmiðlar standa frammi fyrir, þó það hafi verið gagnrýnt.  

„Nú ætlum við líka að setja á laggirnar svo kallað skattalegt hvatakerfi, þar að segja við veitum skattaafslátt fyrir þá sem gerast áskrifendur að fjölmiðlum og þetta er í mótun í mínu ráðuneyti,“ sagði Lilja, enda nauðsynlegt að tryggja gæða fjölmila hér á landi, til að geta barist gegn falsfréttum og tekist á við aðrar áskoranir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert