Fjögur fjórhjól stóðu í ljósum logum

Talið er að kviknað hafi í einu hjólinu vegna bilunar …
Talið er að kviknað hafi í einu hjólinu vegna bilunar og eldur borist í þrjú hjól til viðbótar. Ljósmynd/Slökkvilið Vestmanneyja

Slökkviliðið í Vestmanneyjum brást við útkalli um klukkan tvö í dag þar sem eldur hafði kviknað í fjórum af sex fjórhjólum á leið upp brekkuna að Stórhöfða.

„Það brann allt sem brunnið gat,“ segir Friðrik Páll Arnfinnsson, slökkviliðsstjóri í Vestmanneyjum, í samtali við mbl.is.

Slökkvistarf gekk vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður.
Slökkvistarf gekk vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Ljósmynd/Slökkvilið Vestmanneyja

Hann segir ökumenn fjórhjólanna hafa lagt hjólunum úti í vegakanti og að því sem hann best viti hafi enginn slasast. Um hafi verið að ræða fjórhjólatúr en aðspurður kveðst Friðrik ekki geta sagt til um hvort um heimamenn eða ferðamenn hafi verið að ræða. 

Segir Friðrik aðstæður hafa verið krefjandi þar sem mikill eldur, reykur og hiti hafi verið í hjólunum og aðkoma erfið í brekkunni sem er syðst á eyjunni. Slökkvistarf hafi engu að síður gengið vel og margir brugðist við útkallinu til að ráða niðurlögum eldsins.

Altjón varð á hjólunum.
Altjón varð á hjólunum. Ljósmynd/Slökkvilið Vestmanneyja

„Við erum svona svokallað hlutastarfandi lið þar sem menn bara koma hlaupandi úr sinni vinnu og það var alsherjarútkall hjá okkur.“

Segir Friðrik líklegast mega rekja eldsupptök til bilunar í einu hjólinu sem hafi verið það þriðja í röð sex fjórhjóla, sem hafi orðið til þess að eldur barst í næstu hjól fyrir aftan vegna vinds.

„Þetta gekk bara vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður.“

Mikill reykur, eldur og hiti var í fjórhjólunum.
Mikill reykur, eldur og hiti var í fjórhjólunum. Ljósmynd/Slökkvilið Vestmanneyja
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert