Engum hafði tekist þetta í sumar

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, á hliðarlínunni í kvöld.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta var geggjaður fótboltaleikur, virkilega vel spilaður hjá báðum liðum,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir að liðið gerði jafntefli við Fram, 1:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Bæði lið sköpuðu sér marktækifæri hægri vinstri. Ég held að á endanum hafi þetta verið sanngjörn niðurstaða.

Vissulega fengu þeir síðasta færið í leiknum en fram að því höfðum við líka fengið dauðafæri hinum megin. Ég held að þetta sé sanngjörn niðurstaða í geggjuðum fótboltaleik,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

ÍA er nýliði í Bestu deildinni í ár en hefur farið vel af stað enda er liðið í sjötta sæti með tíu stig eftir sjö leiki. Aðspurður kvaðst hann sáttur við spilamennsku Skagamanna á tímabilinu til þessa.

„Já, ég er það. Ég er virkilega ánægður með mitt lið. Við erum að bæta okkur, það er ekki nokkur spurning.“

Höfðu unnið alla leiki

Því horfir Jón Þór björtum augum til framtíðar.

„Við byggjum ofan á þetta. Þetta er feikilega sterkt stig. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti í sumar sem Fram kemst yfir og nær ekki að vinna leikinn. Ég held að þeir hafi unnið alla leiki sem þeir hafa komist yfir í.

Þannig að það er feikilega sterkt hjá mínum mönnum að koma til baka í þessum leik. Eftir það hefðum við getað tryggt okkur sigurinn. Þeir hefðu að vísu getað gert það líka.

Það er sterkt hjá mínum mönnum að tapa ekki þessum leik og koma til baka eftir að hafa lent undir. Það hefur engum tekist það í sumar. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði hann.

Staðan góð á Arnóri og Rúnari

Arnór Smárason fór af velli í hálfleik og Rúnar Már Sigurjónsson snemma í síðari hálfleik. Jón Þór sagði skiptingarnar hafa verið gerðar þar sem þeir séu báðir að stíga upp úr meiðslum.

„Staðan er bara góð á þeim. Þeir eru að koma til baka, eru báðir búnir að vera að glíma við meiðsli í upphafi móts og Rúnar auðvitað í allan vetur.

Þeir eru að verða betri og betri. Rúnar var algjörlega frábær í þessum leik í kvöld. Við erum bara bjartsýnir á framhaldið,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert