Markaðurinn tryggi ekki félagslegt réttlæti

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er staðráðinn í því að framkvæmdir …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er staðráðinn í því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026. mbl.is/Hákon Pálsson

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, hyggst kynna fyrstu húsnæðisstefnuna fyrir Ísland í október. Þetta kom fram á opnum fundi Framsóknar um húsnæðis- og samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu sem hófst á Grand Hótel klukkan fimm nú síðdegis.

Í húsnæðisstefnunni verður meðal annars lögð áhersla á fjölbreytt framboð húsnæðis og á það að vera tryggt með aukinni þátttöku lífeyrissjóða í uppbyggingu og með því að leggja aukna áherslu á uppbyggingu á landsbyggðinni, reyna að tryggja skilvirkari stjórnsýslu með því að útrýma flöskuhálsum og að halda áfram með hlutdeildarlán. 

Sigurður segir mikilvægt að tryggja húsnæði fyrir alla óháð efnahag og sagði meðal annars að það opinbera þyrfti að stíga inn í þar sem við á. 

„Markaðurinn einn og sér getur ekki tryggt félagslegt réttlæti,“ sagði Sigurður á fundinum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdir við Sundabraut 

Sigurður kvaðst einnig bjartsýnn á að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að hún verði tekin í notkun árið 2031. Verkið yrði boðið út árið 2025. Sú framkvæmd er áætluð kosta 80 milljarða. Verkið er að svo stöddu ekki fullfjármagnað en sagði Sigurður mikilvægt að ráðast í framkvæmdir. 

„Eigum við að bíða eftir því að við höfum efni á því? Eigum við að bíða í önnur 45 ár?” sagði hann kíminn, staðráðinn í því að framkvæmdir myndu hefjast árið 2026.

Frummælendur á fundinum eru:

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Dr. Ólafur Margeirsson, hagfræðingur

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ

Fundarstjóri er Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert