Bjarni segir af sér embætti fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns …
Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir af sér embætti í kjölfar álits Umboðsmanns Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Bjarni boðaði til blaðamannafundar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu nú fyrir skömmu.

Bjarni sagði sér brugðið við að lesa niðurstöðu umboðsmanns og miður sín að hafa séð þá niðurstöðu að sér hafi brostið hæfi í söluferlinu.

Hann sagðist þó vera með algjörlega hreina samvisku í málinu. Hann sagði sér finnast margt álitinu orka tvímælis og margt í beinni andstöðu við þær ráðleggingar sem hann hefur fengið sem ráðherra.

Frekari gögnum deilt síðar

Bjarni sagði að fjármála- og efnahagsráðuneytið muni deila frekari gögnum um málið á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins, meðal annars þeim sem afhend voru Umboðsmanni Alþingis vegna málsins.

Bjarni ítrekaði á fundinum að hann hefði ekki haft upplýsingar um þátttöku félags föður síns í útboðinu og að hann hefði því aldrei haft ástæðu til að ganga eftir því hvort reyna myndi á hæfi hans.

Hann sagði alla framkvæmd sölunnar í höndum Bankasýslunnar með útboðsferli og þannig hafi að hans áliti verið ógerningur fyrir hann sem ráðherra að fylgjast með mögulegum vanhæfisástæðum í ferlinu. Þess vegna hafi niðurstaðan komið honum á óvart.

Bjarni Benediktsson mætir á fundinn.
Bjarni Benediktsson mætir á fundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ósammála áliti umboðsmanns

Hann benti þá á að engar athugasemdir hafi verið gerðar eftir fyrra útboðsferli ríkisins á sölu á hlut sínum í bankanum.

Aðkoman hefði verið sú sama nú og þá og þess vegna skjóti niðurstaðan að hans mati skökku við. Sagði hann að hann teldi það engin áhrif hafa á niðurstöðu málsins hefði hann vikið sæti.

Bjarni tók fram að þó að hann væri ósammála áliti umboðsmanns þá teldi hann mikilvægt að virða álit umboðsmanns, sem væri trúnaðarmaður þingsins. Með því hefði honum verið gert ókleift að starfa áfram í fjármálaráðuneytinu, meðal annars við sölu á eignum ríkisins.

Sagðist hann vilja skapa frið um verkefnið og því myndi hann láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra. Sagði Bjarni að með þessu vildi hann líka sýna að völdum fylgdi ábyrgð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert