Rándýr réttarhöld

Bankastrætismálið í Gullhömrum.
Bankastrætismálið í Gullhömrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirbygging réttarhalda í Bankastræti Club-málinu kostaði íslenska ríkið um 12 milljónir króna. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, dómstjóra hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Réttarhöldin tóku sjö daga og lætur nærri að hver dagur réttarhaldanna hafi kostað um 1,7 milljónir króna. Helstu kostnaðarliðir eru húsaleiga í Gullhömrum, leiga á tækjabúnaði auk þess sem tveir tæknimenn frá Origo voru til taks lengst af í réttarhöldunum. 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, er dómstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, er dómstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Hari

Eins og fram hefur komið voru 25 sakborningar í málinu. Ruddust þeir grímuklæddir inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club og veittist hluti hópsins að þremur fórnarlömbum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsdómur Reykjavíkur myndi ekki rúma alla sakborninga og úr varð að salur í Gullhömrum var leigður fyrir réttarhöldin. 

Ekki pláss fyrir lögmennina

Dómari í málinu ákvað hins vegar að sakborningar mættu ekki hlusta á skýrslutöku hver annars. Hver 25 sakborninga hafði lögmann á sínum snærum auk þess sem brotaþolar nutu tveggja réttargæslumanna. Má því segja að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki rúmað lögmenn í málinu. 

Fengu lögmennirnir um 1.360 þúsund krónur hver í sinn hlut fyrir að sitja réttarhöldin ef miðað er við regl­ur um mál­svarn­ar­laun eða þókn­un verj­enda. Heildarkostnaður nemur því um 36,7 milljónum króna. 

Fimm dagar fóru í skýrslutöku og tveir í málflutning í …
Fimm dagar fóru í skýrslutöku og tveir í málflutning í Bankastræti Club málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

 Segir þóknun sína fimm milljónir króna 

Er þá ótalin sú þóknun sem lögmenn þiggja við rannsókn og undirbúning málsins. Einn lögmanna sem mbl.is hafði samband við áætlaði að þóknun sín vegna málsins myndi verða um fimm milljónir króna.  

Rík­is­sjóði er gert að gera upp við þá lög­menn sem sak­born­ing­um hafa verið skipaðir en hann á aft­ur kröfu á sak­born­inga ef mál­svarn­ar­kostnaður fell­ur á þá. Ef sakborningar almennt eru ekki borgunarmenn fellur kostnaður á ríkið og afar sjaldgæft er að gengið sé hart að fólki vegna slíkra krafna.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert