Hver lögmaður fær 194.400 kr. á dag

Bankastræti Club málið er umfangsmikið í sniðum.
Bankastræti Club málið er umfangsmikið í sniðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir því að hver lögmaður fái um 194.400 krónur auk virðisauka fyrir 8 tíma vinnu á degi hverjum fyrir að sitja fyrir hönd skjólstæðinga sinna við réttarhöld þeirra 25 sakborninga sem eru ákærðir í Bankastræti Club-málinu.

Að auki eru til staðar tveir réttargæslumenn fórnarlambanna. Í heild eru því 27 lögmenn í Gullhömrum við það að verja hagsmuni sinna umbjóðenda. 

Sé tekið mið af reglum um málsvarnarlaun eða þóknun verjenda fær hver lögmaður greiddar 24.300 krónur á hverja klukkustund.

Að sögn eins þeirra lögmanna sem eiga skjólstæðing að verja í réttarhöldunum er hver dagur að lágmarki 8 klukkustundir í vinnu. Kemur það út á 194.400 kr á dag en um 1.360.000 kr. fyrir alla sjö daga réttarhaldanna.  

Þannig má ætla að heildarkostnaður þeirra 27 lögmanna sem sitja við sé 5,2 milljónir kr. dag hvern. Sitji lögmennirnir alla sjö dagana má því gera ráð fyrir því að kostnaður verði um 36,7 milljónir króna auk virðisauka. Er þá óátalinn þóknun til lögmanna á rannsóknarstigi málsins.

Ríkissjóði er gert að gera upp við þá lögmenn sem sakborningum hefur verið skipaður en hann á aftur kröfu á sakborninga ef málsvarnarkostnaður fellur á þá.

Þá ber ríkið kostnað við að koma upp réttarsal í Gullhömrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert