Fannari líst ágætlega á aðgerðirnar

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í dag.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að fyrirtæki í Grindavík hafi kallað eftir því að ríkið kaupi upp atvinnuhúsnæði í Grindavík. Hann hefði gjarnan verið til að sjá meiri stuðning af hálfu ríkisins í þeim efnum.

„Við hefðum viljað gjarnan að það hefði verið hægt að gera meira í þessu efni en við verðum að líta til þess að það eru rök fyrir því og fordæmi að svo var ekki gert,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.

Á blaðamannafundi í Hörpu í dag voru stuðningsaðgerðir fyrir grindvísk fyrirtæki kynntar en tekið var fram að ríkið myndi ekki kaupa upp atvinnuhúsnæði af fyrirtækjum.

Sumt framlenging á fyrirliggjandi aðgerðum

Aðgerðirnar sem kynntar voru í dag fela meðal ann­ars í sér stuðningslán með rík­is­ábyrgð, viðspyrnustyrki, áfram­hald­andi launastuðning og stuðning við hrá­efn­is- og afurðatrygg­ing­ar.

„Mér líst bara ágætlega á þær [aðgerðirnar] í grunninn og sumt af þessu er nú framlenging á því sem áður hefur verið í gangi. Annað er nýmæli þannig það er af hinu góða,“ segir Fannar.

Hann kveðst eiga von á því að þessar aðgerðir sem voru kynntar verði þær aðgerðir sem unnið verði með af hálfu ríkisins fram á vetur og að ekki verði stórtækar breytingar þar á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert