Húsnæðisstuðningur framlengdur til áramóta

Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérstakur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga verður framlengdur til áramóta sem og tímabundinn rekstrarstuðningur til fyrirtækja. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu þar sem kynntar voru tillögur að aðgerðum sem eiga að styðja betur við heimili og fyrirtæki í bæjarfélaginu.

Tillögurnar fela meðal annars í sér stuðningslán með ríkisábyrgð, viðspyrnustyrki, áframhaldandi launastuðning og stuðning við hráefnis- og afurðatryggingar.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillögur ríkisstjórnarinnar

Stuðningslán með ríkisábyrgð aðstoða rekstraraðila með starfstöð í Grindavík að halda uppi starfsemi sinni á óvissutímum.

Fyrirtækjunum verður gert kleift að taka lán hjá lánastofnunum með ábyrgð ríkisins uppfylli þau tiltekin skilyrði. Stefnt er að því að lánveitingar hefjist í haust.

Viðspyrnustyrkur ríkisstjórnarinnar verður framlengdur til lok árs. Viðspyrnustyrkur felur í sér tímabundinn rekstrarstuðning og er stuðningurinn ætlaður til að fyrirtæki geti aðlagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum. Þá geti fyrirtækin hafið starfsemi sína á ný í Grindavík þegar aðstæður leyfa.

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framlengdur út ágúst

Stuðningur til greiðslu launa verður framlengdur til 31. ágúst en hann átti að renna út í lok júní.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, þar sem greint er frá efni blaðamannafundarins, segir að með því að framlengja gildistímann hafa atvinnurekendur og launþegar aukið svigrúm þar sem ekki er gert ráð fyrir að stuðningslán verði ekki afgreidd fyrr en í haust. 

Stefnt er að því að stofna afurðasjóð Grindavíkur. Markmiðið með úrræðinu er að tryggja hráefni og afurðir fyrirtækja í Grindavík fyrir tjóni vegna náttúruvár. Unnið er að frumvarpinu að afurðasjóðnum í matvælaráðuneytinu og stefnt er að því að leggja það fram á Alþingi í júní.

Að lokum verður sérstakur húsnæðisstunðingur fyrir Grindvíkinga framlengdur til áramóta, hann átti að renna út í lok ágúst. Úrræðinu var komið á í desember en markmiðið er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði utan bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert