Segir nýjar áherslur fylgja nýju fólki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tekur nú við embætti fjármála- og …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tekur nú við embætti fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er slík forréttindastaða að vera í, að brenna fyrir það að starfa í stjórnmálum og trúa því einlægt að það sem maður getur lagt á borðið geri gagn fyrir íslenskt samfélag. Það eru, að ég tel, mjög fáir stjórnmálamenn sem myndu ekki sjá gríðarleg tækifæri í því að fá að halda utan um fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ég er þakklátari en ég hefði getað ímyndað mér þegar ég steig mín fyrstu skref í stjórnmálum.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, en hún tók í dag við embætti fjármála- og efnahagsráðherra af Bjarna Benediktssyni sem stígur inn í embætti utanríkisráðherra.

Eins og greint hefur verið frá var þessi hrókering tilkynnt í dag á blaðamannafundi formanna flokka ríkisstjórnarinnar. Var þessi ákvörðun tekin í kjölfar þess að Bjarni lét af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra vegna álits umboðsmanns Alþingis um sölu ríkisins á Íslandsbanka.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr fjármála- og efnahagsráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þakklát Bjarna

Þórdís segir nýja embættið leggjast vel í sig og segist tilbúin að takast á við þau stóru verkefni sem fram undan eru og þá ábyrgð sem fylgir þeim. Hún kveðst þakklát Bjarna fyrir að hafa treyst sér til að takast á við þetta verkefni.

„Ég tek þessari ábyrgð mjög alvarlega. Ég tek þau verkefni sem ég sinni mjög alvarlega og þau eiga hug minn allan á meðan ég sinni þeim.“

Hún tekur fram að erfitt hafi verið að stíga frá þeim verkefnum sem hún hefur unnið að síðustu tvö ár og ítrekar mikilvægi þess að utanríkisráðuneytið sinni sínum skyldum á alþjóðavettvangi. Hún vísar þá til stríðsins í Úkraínu og þeirra átaka sem standa nú yfir áGasasvæðinu.

Utanríkisráðuneytið í góðum höndum

„Þetta eru sögulegir tímar og við höfum ekki séð svona mikla og vaxandi spennu í kringum okkur í marga áratugi. Ísland er ekki ónæmt fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Það er frumskylda okkar að sinna þessum málum vel og þess vegna er ég glöð að það er Bjarni Benediktsson sem fer þarna inn,“ segir hún og bætir við að verkefni ráðuneytisins séu í góðum höndum.

Síðasta verkefni Þórdísar sem utanríkisráðherra var að samþykkja 70 milljóna króna framlag frá íslenskum stjórnvöldum til Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna (UNRWA). Hún segir að Bjarni muni nú taka við því verkefni og fleyta því áfram. 

„Sú ákvörðun er frágengin en verður væntanlega fylgt eftir með minnisblaði til ríkisstjórnar á þriðjudaginn og það verður væntanlega Bjarni sem fer með það minnisblað inn í ríkisstjórn.“

Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga af blaðamannafundi sem haldinn var í morgun …
Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga af blaðamannafundi sem haldinn var í morgun um breytingarnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýju fólki fylgi nýjar áherslur

Spurð hvort að búast megi við breyttum áherslum eða breytingum í baráttu fjármála- og efnahagsráðuneytisins gegn verðbólgunni og hækkandi stýrivöxtum segir Þórdís að nýju fólki fylgi alltaf nýjar áherslur.

„Ef við horfum á það sem oddvitar voru að kynna hér fyrir hádegi í dag um áherslu á efnahagsmálin og ná tökum á verðbólgu. Allt sem við gerum verður að styðja við það. Síðan erum við með forgangsverkefni eins og málefni ÍL-sjóðs og að klára sölu á Íslandsbanka. Allt sem við munum gera mun falla að því að í því felist umbætur og einföldun.“

Spurð hvort hún sé vongóð um að koma hennar í fjármála- og efnahagsráðuneytið skapi sátt um söluna á Íslandsbanka og störf ráðuneytisins segir Þórdís það vant með farið að fara í verkefni sem þetta. 

„Við höfum margt til að líta til. Ég get einfaldlega lofað því að ég muni leggja mig alla fram við að gera þetta þannig að um það geti ríkt sátt, að þetta verði eins gagnsætt eins og hægt er. Forgangsverkefnið er að losa okkur undan þessu eignarhaldi og nýta þá fjármuni í það sem þeir eiga að nýtast í.“

Bjóst ekki endilega við þessari niðurstöðu

Þórdís segir margt hafa farið í gegnum huga hennar þegar Bjarni sagði starfi sínu lausu á þriðjudaginn, þó hún hafi ekki endilega búist við þessari niðurstöðu. 

„Það eru vissulega mörg samtöl sem eiga sér stað við þessar aðstæður en hlutirnir þurfa að gerast í réttri röð. Formaður Sjálfstæðisflokksins þurfti að gera það upp við sig hvernig hann ætlaði að mæta þessari stöðu. Hann gerði það og ég styð hann í því og þá leiðir eitt af öðru, þannig að þetta er niðurstaðan, en þessu fylgir gífurlega mikil ábyrgð og traust sem ég tek mjög alvarlega.“

Fyrsta verkefni Þórdísar verður að fylgja á eftir fjárlagafrumvarpinu en það er nú til meðferðar hjá þinginu. Síðan tekur hún við þeim verkefnum sem eru á þingmálaskrá fjármála- og efnahagsráðherra en hana verður hægt að uppfæra um áramótin.

„Næsta vika mun eðli málsins samkvæmt fara í það að setjast niður með fjölda fólks sem eru sérfræðingar á sínu sviði og setja mig og okkur inn í þau mál. Ég hef gert það frá fyrsta degi að gefa mér tíma í að hlusta á fólk sem er inni í málaflokkum og borið ábyrgð á verkefnum í lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert