Frelsishetja eins hryðjuverkamaður annars

Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Íslands-Palestínu, fordæmir ekki Hamas.
Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Íslands-Palestínu, fordæmir ekki Hamas. Samsett mynd

Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Íslands-Palestínu (FÍP), kveðst ekki vilja fordæma hryðjuverkasamtökin Hamas sem réðust 7. október á Ísrael og myrtu á annað þúsund manns. Segir hann í samtali við mbl.is að félagið fordæmi þó árásir á almenna borgara.

Hver er afstaða Félagsins Íslands-Palestínu gagnvart Hamas-samtökunum?

„Við sömdum ályktun sem segir að við fordæmum allar árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust.“

En fordæmið þið Hamas?

„Nei, við fordæmum ekki Hamas-samtökin. Þetta er svolítið sérstakt því þú ert með svokallaðan hernaðararm Hamas. Hamas er bæði pólitískt, hernaðarsamtök og með félagsþjónustu líka, en við fordæmum öll morð. Hvort sem það eru Ísraelsmenn eða Hamas sem fara yfir strikið að ráðast á almenna borgara, þá fordæmum við það,“ segir Hjálmtýr.

Ítrekað hvatt til morða á gyðingum

Blaðamaður spyr út í ítrekaða hvatningu leiðtoga Hamas í gegnum árin, þess efnis að gyðingar skuli myrtir og Ísraelsríki tortímt, stefnu Hamas á sama tíma, sem kveður á um morð á gyðingum, og hvort það sé erfitt að fordæma samtök sem standi fyrir slíkum boðskap.

„Þetta er ekki gyðingaandúð. Eða jú, auðvitað eru í öllum samtökum alls konar fólk, en heildarlína samtakanna er þessi – að þau hafi rétt til að vinna gegn hernáminu og vinna gegn árásum á Palestínumenn.

Við styðjum fyrst og fremst friðsamlegar aðgerðir, en réttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna segir að allt kúgað fólk hafi rétt til að berjast og með vopnum. Það verður þó auðvitað að vera innan þess ramma að það sé ekki gegn almennum borgurum,“ segir Hjálmtýr.

Á vefsíðu Yale-lagaháskólans má sjá að í stofnskjölum Hamas stendur til að mynda:

„Dómsdagur mun ekki renna upp fyrr en múslimar berjast við gyðinga, þegar gyðingurinn mun fela sig á bak við steina og tré. Steinarnir og trén munu segja Ó múslimar, ó Abdulla, það er gyðingur á bak við mig, komdu, og drepið hann. Aðeins Gharkad-tréð myndi ekki gera það vegna þess að það er eitt af trjám Gyðinga.“

Báðir aðilar framið stríðsglæpi

Hjálmtýr segir sjálfsagt að fordæma hvatningu til þjóðarmorða en það sé nákvæmlega það sem verið er að gera við Palestínumenn.

„Þeir [Hamas] geta sagt allan andskotann í reiði og örvæntingu, og jafnvel samþykkt pólitíska stefnu sem maður getur alls ekki samþykkt. Hinn dapri raunveruleiki er samt sá að það er búið að vera í 75 ár, hægt og bítandi, að stela landi af Palestínumönnum og verið að myrða þá þúsundum saman.“

Hann segir að bæði Ísrael og Hamas hafi framið stríðsglæpi en að ekki sé hægt að bera þessa aðila saman þar sem aðilarnir séu ekki jafnsettir og að Ísrael eigi „upptökin“ á átökunum.

Vildi sjá stjórnvöld fordæma Ísrael líka

Þér finnst gyðingaandúð ekki vera stór hluti af þessum samtökum?

„Nei gyðingaandúð kemur fyrst og fremst frá hægrinu. Þar er hið raunverulega gyðingahatur,“ segir Hjálmtýr.

Hann segir að það sé ósanngjarnt að kalla þá sem gagnrýna Ísraelsríki og síonista gyðingahatara, eins og sumir gera.

Hann tekur þó enn og aftur fram að hann sé algjörlega mótfallinn öllum aðgerðum gegn óbreyttum borgurum og að FÍP sé búið að fordæma hryðjuverkin 7. október. Hann kveðst þó ekki sáttur við að fordæmingar stjórnvalda Íslands hafi aðeins beinst að Hamas. Hefði hann viljað sjá fordæmingu á Ísrael.

Í umræðu um Ísrael grípur Hjálmtýr orðið af blaðamanni er hann notar orðið „hryðjuverkasamtök“ til að lýsa Hamas og segir Hjálmtýr þá meðal annars:

„Er ekki sagt að frelsishetja eins sé hryðjuverkamaður annars?“

Haldinn var samtöðufundur í gær á vegum FÍP og segir Hjálmtýr að hátt í þúsund manns hafi mætt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert