Matvælaráðherra brugðið

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að rekstraraðilar í svo viðkvæmri …
„Það er auðvitað mjög mikilvægt að rekstraraðilar í svo viðkvæmri grein, sem allt utanumhald um matvæli er, virði lög og reglur,“ segir Svandís. Samsett mynd

Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra var brugðið við að sjá myndir úr kjallaranum í Sóltúni 20 þar sem mörg tonn matvæla voru geymd við óheilsusamlegar aðstæður.

Rottuskítur og -þvag, dauð og lifandi meindýr, dýnur, koddar, tjald og óhrein eldhúsáhöld fundust meðal annars í kjallaranum. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) fargaði matvælunum í kjölfar eftirlitsferða í september og er nú með málið til rannsóknar. 

Hafa frest til 14. nóvember

Í eftirlitsskýrslum, sem hafa verið afhentar fjölmiðlum, kemur fram að HER hafi ástæðu til að halda að matvælunum hafi verið ætlað til dreifingar en ekki einkaneyslu. Vy-þrif, fyrirtækið sem hafði geymsluna á leigu, hefur vísað þeim ásökunum á bug. 

Þess ber að geta að Davíð Viðarsson, eigandi Vy-þrifa, er einnig skráður eigandi Vietnam Market og á 40% hlut í WOKON Mathöll ehf.

HER hefur ekki tekist að sanna að matvælin hafi farið í dreifingu en hefur krafið Vy-þrif um upplýsingar um dreifingu matvælanna. Ber fyrirtækinu að svara fyrir 14. nóvember.

Mikilvægt að rekstraraðilar virði lög og reglur

„Mér var brugðið, rétt eins og öllum öðrum, bæði yfir umfanginu og þessum myndum sem birtust,“ segir Svandís í samtali við mbl.is. 

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að rekstraraðilar í svo viðkvæmri grein, sem allt utanumhald um matvæli er, virði lög og reglur.“

Hún kveðst ekki vita til þess að málið hafi ratað á borð matvælaráðuneytisins. Er það á forræði heilbrigðiseftirlitsins, að því er hún best veit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert