Wok On sendir út yfirlýsingu vegna matvælalagersins

Wok on hefur notið vinsælda.
Wok on hefur notið vinsælda. mbl.is/Ásdís

Forsvarsmenn veitingastaðarins Wok On hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir hafna öllum tengslum við matvælalager í Sóltúni. Í henni greinir fyritækið jafnframt frá því hvaðan þær vörur sem fyrirtækið notar í starfseminni koma. 

Eins og fram hefur komið fargaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur matvöru í tonnatali eftir að upp komst að matvælin voru geymd við óheilnæmar aðstæður. Þannig ber skýrsla heibrigðiseftirlitsins með sér að matvælin voru geymd innan um meindýr og m.a. mátti finna rottuskít á lagernum.

Davíð Viðarsson er skráður er fyrir lagernum en hann er jafnframt 40% hluthafi í Wok on Mathöll ehf. sem starfrækir veitingastaði á Höfða og í Hafnarfirði. Í tilkynningu segir jafnframt að Davíð komi ekki að daglegum rekstri staðanna.  

Þá hafi Davíð engin tengsl við Wok on ehf. sem rekur 7 aðra veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu.  

Sárt að veitingastaðurinn sé bendlaður við málið

„Í ljósi umræðu sem hefur myndast í samfélaginu um vörulagerinn í Sóltúni langar okkur í Wok On að koma nokkrum hlutum á framfæri til að draga úr misskilningi en sárt er að heyra að búið að sé að bendla veitingastaðinn við málið,“ segir í tilkynningu.

„Wok On hefur ekki keypt neinar vörur sem geymdar voru í vöruhúsinu í Sóltúni. Wok On kaupir nautakjöt frá Esju, kjúkling frá Stjörnugrís, rækjur frá Norðanfisk, egg frá Nesbú og þurrmat aðallega frá Garra en einnig frá Eir, Ekrunni og ÓJK. Grænmetið kemur frá Mata. Allar þær vörur sem Wok On kaupir fyrir alla veitingastaði sína er hægt að rekja til viðeigandi birgja með kvittunum og reikningum. Við áréttum því að allar vörur frá Wok On koma frá viðurkenndum birgjum.“ 

Komi ekki að daglegum rekstri 

„Wok On ehf. er 100% eigandi og eini rekstraraðili sjö Wok On veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, í Vík og Hveragerði. Davíð Viðarsson á 40% í Wok On Mathöll ehf. sem starfrækir veitingastaði Wok On á Höfða og í Hafnarfirði og aðstoðaði hann við opnun þeirra. Einnig á hann húsnæðið sem Wok On Hafnarfirði er í og leigir veitingastaðurinn það rými frá Davíð. Davíð hefur ekki aðkomu að daglegum rekstri staðanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert