Svartklæddir eftirlitsmenn í Strætó

Greiða þarf 15 þúsund krónur í fargjaldaálag ef maður eru …
Greiða þarf 15 þúsund krónur í fargjaldaálag ef maður eru gómaður miðalaus í Strætó. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Farþegar Strætó sem ekki greiða fargjöld þurfa nú að vara sig á svartklæddum eftirlitsmönnum sem eru farnir að stíga inn í strætisvagnana til þess að gæta þess að allir farþegar hafi keypt sér miða.

„Við erum komnir með heimild til þess bregðast við þegar menn borga ekki rétt fargjald,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., í samtali við mbl.is. Nú má vísa farþegum sem hafa ekki greitt fargjald úr vögnum og sekta þá um fargjaldaálag.

Stefnt er að því að hefja gjaldtöku álagsins í kringum áramótin. 

„Það ætti að þýða betri innheimtu af fargjaldi,“ bætir framkvæmdastjórinn við en talið er að aukaútgjöld vegna falsasvindls hafi hlaupið á nokkur hundruðum milljónum að ársvísu sem hefur þó minnkað aðeins með upptöku nýs greiðslukerfis á síðustu árum, að sögn Jóhannesar. Hann segir að Strætó hafi ýjað að því við stjórnvöld í nokkuð mörg ár um að fá þessa heimild.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Strætó

Fjölga skönnum í vögnum

„Við erum svolítið orðin eins og allar aðrar þjóðir í kringum okkur með þessu úrræði,“ segir Jóhannes en þessi nýi áfangi byggðasamlagsins er aftur á móti enn á ákveðnum byrjunarreit en ýmsar hugmyndir standa til boða.

„Framtíðarplönin okkar á næstu misserum er að fjölga skönnum í vögnum, alla veganna á einhverjum leiðum þar sem við vitum að margir eru að koma um borð á sama tíma,“ segir hann og bætir við að það sé einnig möguleiki að koma skönnum fyrir á stoppistöðvum strætisvagna, svo hægt yrði að greiða fyrir miðann áður en gengið er inn í vagninn.

Jóhannes segir að Strætó hafi 3-4 stöðugildi í þessum eftirlitsstörfum og ekki sé ætlast til þess að þeim verði fjölgað um margt, nema í auknu álagi og ef farið er í „átaksverkefni“. Þessir starfsmenn geta þá skannað miða, sem eru ýmist rafrænir eða á svokölluðum Klapp-kortum, og þannig séð hvenær miðinn var keyptur og seinast notaður.

15 þúsund króna gjald

Ef farþegi sem hefur ekki borgað fargjöld er gripinn um borð í strætisvagni verður hann sektaður um 15.000 krónur í fargjaldaálag.

Jóhannes segir að stefnt sé að því að byrja að sekta um áramót en eins og staðan er í dag er ekki til búnaður til þess koma út sjálfvirkum sektum til farþega. Aftur á móti er Strætó enn heimilt að vísa fólki úr vögnum.

„Það kom í ljós þegar við fórum að undirbúa þetta að það er ekki til staðlaður tækjabúnaður til þess að nota við þetta. Við gætum samt séð fyrir okkur að byrja um áramótin að einhverri mynd,“ segir hann.

„Við getum líka tekið einhver milliskref og gefið þetta fyrst út á pappír, eins og bílastæðaverðirnir voru með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert