Strætó appið lagt niður og Klappið tekið við

Strætó bs. hefur ákveðið að leggja niður gamla Strætó appið.
Strætó bs. hefur ákveðið að leggja niður gamla Strætó appið. mbl.is/sisi

Upprunalega Strætó appinu verður lokað þann fyrsta júlí en öll virkni sem viðkemur leiðarkerfi eða miðum fyrir höfuðborgarsvæðið fer nú fram í forritinu Klappið auk annarra nýjunga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Strætó bs.

Ekki hægt að versla landsbyggðarmiða í Klappinu

Sá hængur er þó á breytingunni að ekki er hægt að versla landsbyggðarmiða í Klappinu. Í tilkynningunni er þó ítrekað að áfram verði hægt að greiða með reiðufé og fá til baka eða með greiðslukorti um borð í vögnunum. 

Sala miða í appinu var að meðaltali aðeins 3% allra seldra fargjalda á landsbyggðinni. Vegagerðin rekur og ber ábyrgð á landsbyggðarstrætó og er nú með til skoðunar að bæta við fleiri greiðslumöguleikum fyrir viðskiptavini á landsbyggðinni,“ segir í tilkynningunni.

Þá bendir Strætó bs. á að hægt sé að flytja miða fyrir höfuðborgarsvæðið yfir í Klappið og krefjast endurgreiðslu á miðum fyrir landsbyggðina sem eru ekki eldri en fjögurra ára í klappið.

Þeir sem eiga enn miða í Strætó appinu eru beðnir um að senda tölvupóst á netfangið endurgreidslur@straeto.is með upplýsingum um símanúmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert