Ákall eftir forseta án tengsla við valdöfl og fjármálakerfi

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi kveðst sjaldan hafa verið spenntari.
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi kveðst sjaldan hafa verið spenntari. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Auðvitað er fylgið enn á hreyfingu, það er það sem er spennandi. Það eru margir í framboði og mikil umræða,“ segir Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi innt eftir viðbrögðum við nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið. 

Halla Hrund heldur enn forystu í könnunum en fylgi hennar hefur þó lækkað úr tæp­lega 30% niður í 26% á milli vikna. Lækkað fylgi Katrínar Jakobsdóttur, Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr einnig á meðan fylgi Höllu Tómasdóttur nær tvöfaldaðist.

Samhljómur um að lyfta tækifærunum

„Ég er auðvitað ótrúlega þakklát fyrir þetta fylgi og þessa forystu,“ segir Halla Hrund.

„Ég finn það á samtölum við fólk um allt land að það er samhljómur um allt land um það sem ég er að tal fyrir og ákall eftir forseta sem hefur ekki tengsl við valdöfl eða fjármálakerfi og ég er sannarlega að bjóða mig fram sem fulltrúa almennings í landinu.“

Kveðst hún spennt fyrir áframhaldandi samtöl um hvernig megi lyfta tækifærum í landinu og hlúa að samfélaginu á ólíkum sviðum. 

Kort/mbl.is

Aldrei verið spenntari

Innt eftir því hvað hún telji liggja að baki fylgistaps segir Halla það eðlilegt þegar svo margir bjóði sig fram að fylgið dreifist. 

„Þess þá heldur er ég þakklát fyrir þessa niðurstöðu þó að auðvitað sé ennþá langt í kosningar og spennandi vinna framundan við að halda áfram að eiga öflugt samtal.“

Aðspurð kveðst Halla í raun aldrei hafa verið spenntari fyrir vikunum framundan. 

„Það er mikil tilhlökkun fyrir vikunum framundan og tilhlökkun að vinna með þeim hundruðum sjálfboðaliða sem koma að þessu stóra verkefni og tilhlökkun að vakna á hverjum morgni og vinna með góðu fólki að framtíðarsýn fyrir Ísland.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert