Ég gafst upp og keypti mér bíl

Strætisvagnar eru oft og tíðum á undan áætlun. Ekki er …
Strætisvagnar eru oft og tíðum á undan áætlun. Ekki er gott að reiða sig á slíkan samgöngumáta. mbl.is/Árni Sæberg

Höfuðborgarsvæðið er skipulagt fyrir bíla, ekki fólk. Það virðist seint ætla að breytast og þess vegna er allt eins gott að kaupa bara bíl. En þarf þetta að vera svona?

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í bílablaði Morgunblaðsins:

Ég keypti mér bíl fyrir um mánuði. Þá hafði ég varið þremur og hálfu ári á þessu landi án bíls. Nýi bíllinn minn er því einn af þeim rúmlega 70 bílum sem bættust við umferðina á höfuðborgarsvæðinu þá vikuna, miðað við meðaltölur frá árinu 2016 og til dagsins í dag.

Og já, hann er bókstaflega nýr. Aldrei hélt ég að ég myndi kaupa nýjan bíl. Og raunar hafði ég ætlað mér að komast sem lengst af án þess að eiga bíl yfirhöfuð. En ég entist einfaldlega ekki lengur. Hér fylgir stutt og kannski á köflum dramatísk reifun á ástæðum þess, sem er vís til að ergja liðsmenn beggja þeirra fylkinga sem rífast um skipulagið á höfuðborgarsvæðinu. Farið er um víðan völl og eru lesendur jafnframt varaðir við því.

Árið 2019 flutti ég úr landi og til Vínarborgar. Seldi um leið bílinn minn, enda hafði ég litla þörf fyrir hann þar sem ég var að fara. En það sem mig hafði ekki órað fyrir er hversu litla þörf allir aðrir þar höfðu sömuleiðis, hvort sem var fyrir minn bíl eða sinn eigin.

„Heil Hitler!“ var kveðjan sem viðskiptavinur Strætó bs. fékk að …
„Heil Hitler!“ var kveðjan sem viðskiptavinur Strætó bs. fékk að heyra, í stað þess að fá far með vagninum í Mjóddina samkvæmt áætlun. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert mál að ganga um borð

Í Vín eru almenningssamgöngur nefnilega í hávegum hafðar. Sama hvar maður er staddur, þá er maður aldrei langt frá næsta sporvagni, strætisvagni eða neðanjarðarlest. Alla þessa samgöngumáta nýtti ég í hverri viku.

Fólk kippir sér heldur ekki upp við að rekast á forseta sambandsríkisins í neðanjarðarlestinni. Minnir á ágætt máltæki: „Þróað land er ekki staður þar sem þeir fátæku eiga bíla. Heldur þar sem þeir ríku nota almenningssamgöngur.“

Og vilji maður ganga um borð er það ekkert mál. Enginn miði, ekkert til að skanna, enginn til að stöðva þig. Þú ferð bara leiðar þinnar án þess að hugsa þig tvisvar um.

Að sjálfsögðu er greiðslu krafist. Farþegarnir hafa einfaldlega, þegar þarna er komið sögu, þegar greitt fyrir miðann sinn, hvort sem það er stakur miði eða kort til árs, mánaðar eða viku. Það gerði ég auðvitað líka, ásamt nærri 100% farþega samkvæmt niðurstöðum reglubundins eftirlits þar í borg. Kom ég auga á það ekki oftar en tvisvar.

Leiðir af sér minni umferð

Lífsgæðin tengd svona kerfi verða seint metin til fjár. Af þessu leiðir að það er margt verðmætara sem maður getur varið tíma sínum og peningum í, í stað þess að kaupa og halda úti bíl. Þetta setur líka óneitanlega mark sitt á borgina.

Ein afleiðing þessa er nefnilega sáralítil umferð. Ég bjó tiltölulega miðsvæðis og göturnar í kringum mig voru yfirleitt nær lausar við nokkra umferð, þrátt fyrir miklu þéttari byggð en í Reykjavík og fjölda tiltækra bílastæða, auk verslana.

Vitaskuld uppfylla almenningssamgöngur ekki allar kröfur til samgöngumáta, sem geta verið af ýmsu tagi. Ég leigði því stundum bíl þegar ég brá mér út fyrir Vínarborg, en samt sjaldnar en ég ferðaðist með lest eða rútu handan borgarmarkanna.

Það var líka ekkert mál að fá bíl að láni, og ég var enga stund að komast út úr borginni. Þannig brunaði ég austurrísku hraðbrautina til Innsbruck og keyrði líka suður fyrir Alpana að Bled-vatni í Slóveníu. Bæði ferðalög alveg yndisleg og fararskjótarnir frábærir.

Ég lærði líka fljótt að það borgaði sig að bóka bíl með einungis einnar nætur fyrirvara, til að auka líkurnar á uppfærslu í stærri og betri bíl mér að kostnaðarlausu. Það er önnur saga.

Það lýsir Vín ef til vill ágætlega að hún hefur iðulega verið metin sú borg heimsins þar sem íbúar njóta mestu lífsgæðanna. Er hún í fararbroddi á mörgum slíkum listum. Á nýjasta lista tímaritsins Economist er Kaupmannahöfn í öðru sæti, en almennt er mest litið til þess lista.

Á sama lista er Reykjavík í 47. sæti. Allar aðrar höfuðborgir Norðurlanda eru svo nær Vín en þær eru Reykjavík. Stokkhólmur er neðst þeirra í 21. sæti, Ósló þar fyrir ofan í 20. sæti og Helsinki skipar 12. sæti.

Óeðlilegt líf heima á Íslandi

Það kemur því ef til vill ekki á óvart að því fylgdu mikil viðbrigði að flytja aftur til Íslands og á höfuðborgarsvæðið. Þrátt fyrir að Ísland sé nánast borgríki með risastóran og fallegan þjóðgarð þá er höfuðborgarsvæðið skipulagt með þeim hætti að nær allir þurfa bíl til að geta lifað eðlilegu lífi.

Ég tileinkaði mér því óeðlilegt líf, og gerði mun minna. Það var líka auðvelt og eiginlega fyrirskipað í ástandinu sem kennt er við nýju kórónuveiruna, enda mun minna um að vera sökum misgáfulegra samkomutakmarkana stjórnvalda.

En eftir því sem stjórnvöld sáu að sér og yfirlýst ástand tók að fjara út, með tilheyrandi fjölgun þeirra dauðsfalla sem koma hafði átt í veg fyrir (aftur, önnur saga), þá varð mér smám saman ljóst að ég vildi ekki lifa svona óeðlilegu lífi áfram.

Ég var einfaldlega orðinn eirðarlaus og saknaði þess lífs sem ég lifði áður en ég flutti út til Vínar. Og hvað þá ef ég miða við tímann úti í Vín. Ég gekk í vinnuna og svo var það yfirleitt bara ræktin, sundlaugin og matvöruverslunin. Að vísu hef ég búið svo um að ég bý í þriggja mínútna fjarlægð frá þessu öllu fyrir utan vinnuna, en þangað er hálftíma ganga sem tekur mig meðal annars yfir Elliðaárnar.

Ég vildi gera eitthvað meira en eiginlega bara þetta.

En af hverju ekki að nota strætó? Eðlileg spurning. Kannski er svarið það líka. Að fenginni reynslu af viðskiptum við Strætó forðast ég eins og heitan eldinn að gefa þessu byggðasamlagi peningana mína, sem hafa jafnvel verið inntir af hendi í skiptum fyrir ekki neitt.

Tvisvar á síðustu tveimur árum hef ég þannig látið á það reyna að taka strætisvagn úr miðborg Reykjavíkur og til vinnu í Hádegismóum. Jú, vissulega gæti fyrirtækið verið betur staðsett með tilliti til almenningssamgangna, en þetta blessaða byggðasamlag gefur sig út fyrir það að þjónusta Hádegismóa samt sem áður.

Samkvæmt leiðakerfi Strætó þarf að taka tvo strætisvagna til að komast að Hádegismóum úr miðborginni. Eðlilegt, svo sem. En í raunveruleikanum þarf að taka einn strætisvagn til þess að komast svo að því að maður þarf að taka leigubíl það sem eftir er af leiðinni.

Strætó bs. er nefnilega alveg innilega sama um gæði þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Sú er að minnsta kosti reynsla margra þeirra sem neyðst hafa til að skipta við þetta apparat.

Ráðvilltir ferðamenn víða

Í fyrri ferðinni tók ég leið 6 upp í Ártún, þar sem annar vagn átti að taka við og færa farþega lengra inn í Árbæinn og upp í Móa. Sá var þegar farinn, enda var leið 6 um það bil mínútu of sein og það þrátt fyrir enga teljanlega skrýtna umferð.

Hálftími var til þess næsta og fjölskylda, erlendir ferðamenn, stóð þarna ráðalaus þar til ég gat sagt þeim hvernig væri í pottinn búið. Næsta mál á dagskrá var svo að rölta yfir á N1 í Ártúni og fá þangað leigubíl.

Aftur lét ég á þetta reyna nú í lok sumars. Tók þá strætisvagn drjúgan hluta Hverfisgötunnar, en var að vísu rétt ókominn á Hlemm þegar ég náði loks að borga með til þess gerðu appi. Um hálfri mínútu síðar, þá á Hlemmi, rann upp fyrir mér að ég hefði betur sleppt því að borga. Næsti vagn, sem leiðakerfið hafði sagt mér að taka, var þá löngu farinn og vitaskuld langt á undan áætlun.

Og það að vera á undan áætlun er svo miklu verra en að vera seinn, í ljósi þess að yfirleitt ganga vagnar Strætó með 20-30 mínútna millibili.

Á Hlemmi mættu mér einnig örvinglaðir japanskir ferðamenn, en þeim hefur væntanlega liðið eins og þeir væru lentir á annarri reikistjörnu þar sem enn ætti eftir að kynna innfæddum almenningssamgöngur. Þeir höfðu, eins og ég, misst af vagninum sem lagt hafði af stað vel fyrir áætlaðan tíma. Þeir virtust sætta sig við að bíða eftir þeim næsta, en spurðu mig hvenær þeir þyrftu að yfirgefa vagninn til að ná Viðeyjarferjunni.

Íslensk hönnun. Ég myndi ekki lá yngstu kynslóðinni það, að …
Íslensk hönnun. Ég myndi ekki lá yngstu kynslóðinni það, að reyna að styðja fingrinum á kalt glerið í von um að sjá fleiri stoppistöðvar. mbl.is/Árni Sæberg

Hvert sendir maður reikninginn?

Höfðu Japanirnir þá rýnt í leiðakerfisspjald við hlið okkar en ekki komið auga á þá stoppistöð sem þeir höfðu lesið sér til um. Skýringin var einföld og hefur blasað við mörgum farþeganum síðustu árin. Jú, Strætó hefur valið að gera spjöld sín þannig úr garði að einhvers konar felligluggi feli meirihluta stoppistöðvanna, sé langt í endastöð á viðkomandi spjaldi.

Málið er að, öfugt við netheima, þá er ekki hægt að smella til að sjá meira. Kalt og viðmótssnautt gler mætir þeim þumli sem það reynir. Sá hluti blaðsins sem átti að sýna Japönunum stoppistöðina þeirra var því auður og hvítur.

Ég gat sem betur fer gúglað fyrir þá og sagt þeim hvar þeir þyrftu að fara út. Mætti ég miklu þakklæti. „Afsakið þetta, en almenningssamgöngurnar okkar sökka,“ gæti ég hafa sagt. Ég vona bara að fleiri ferðamenn þori að spyrja okkur sem byggjum þetta land, því ekki veit ég hvernig þeir eiga öðruvísi að rata um þetta kerfi.

Að þessu loknu var lítið annað að gera en að ganga yfir að biðstöð leigubíla og upp í einn slíkan, með kortið enn heitt eftir stuttu strætóferðina, og borga nú fyrir leigubílinn út að jaðri borgarinnar. Ég spyr bara: Hvert sendir maður reikninginn? Hefði skrifstofa Strætó undan, byði hún upp á slíkt?

Í það minnsta sagði leigubílstjórinn mér að leiðakerfi Strætó væri stétt sinni afar atvinnuskapandi. Þessi vanskapnaður er þá að minnsta kosti einhverjum arðbær.

Fleiri sögur af Strætó bs.

Ég má til með að bæta við fleiri reynslusögum. Ensk vinkona mín, sem flutti til landsins fyrir rúmum þremur árum, fékk aldeilis óblíðar móttökur frá byggðasamlaginu fyrstu mánuðina sína hér.

Hún hafði ekki dvalið hér lengi þegar hún var boðuð í atvinnuviðtal. Gerði hún sig reiðubúna og fór sérstaklega tímanlega út á biðstöðina til að taka strætisvagn í viðtalið. Nema hvað, svo kemur strætó og hún, með höndina útrétta, þarf að horfa á hann þjóta framhjá sér.

Frá símsvara Strætó fengust engar skýringar. En aftur, þá var ekkert annað til ráða en að hringja á leigubíl, fá hann á stoppistöðina og borga honum fyrir farið í viðtalið. Náðist það rétt í tæka tíð. Að reiða sig á þjónustu Strætó bs., það er að leggja tíma sinn og pening að veði.

Önnur reynslusaga erlendrar vinkonu minnar er öllu óskemmtilegri. Var hún þá komin með vinnu í miðborginni og hugðist taka strætisvagn heim í lok vaktar. Hún komst vissulega um borð en þegar vagninn átti að beygja af Reykjanesbrautinni og í Mjódd þá einfaldlega gerði hann það ekki.

Hana grunaði að ekki væri allt með felldu og vakti máls á þessu við bílstjórann. Hann kvaðst ekki hafa séð hana en að hann gæti ekki snúið við úr þessu. Nú þyrfti hann að keyra hana í Hafnarfjörð.

Siðmenningin er aðeins lengra á veg komin í hennar heimalandi. Var hún enda gáttuð á þessu. En áfram keyrir bílstjórinn, með hana eina um borð og komið fram yfir miðnætti að vetri til. Hann stöðvar svo vagninn einhvers staðar í Hafnarfirði, hleypir henni út og gengur inn í einhvers konar kaffistofu vagnstjóra þar, sem þá höfðu einnig lokið við sinn akstur. Hún átti að fylgja á eftir.

„Heil Hitler!“ var kveðjan sem honum mætti frá viðstöddum við innkomuna á kaffistofuna. Vinkonu mína, sem ekki er vön slíkum kveðjum eins og segja má um ef til vill flesta, rak í rogastans. Hún reyndi þó að láta á litlu bera heldur gekk líka rólega inn á kaffistofuna. Það var vissulega þægilegra að vera innan um fleiri en bara bílstjórann.

Og fólkið varð kannski dálítið kauðslegt. Vinkona mín átti auðvitað ekki að vera þarna. Það vissu allir og líka hún. Að vísu örugglega ekki stjórnendur Strætó. Þeir vissu ekki neitt. Sváfu heima hjá sér og keyrðu í vinnuna daginn eftir.

Hún var að lokum keyrð heim, í sama vagni og allir strætóbílstjórarnir. En bara eftir að þeir höfðu fengið kaffið sitt.

Spænum upp malbikið

Auðvitað hefur hún oft síðan lent illa í Strætó, enda neyðst til að skipta við apparatið miklu meir en ég. Iðulega fæ ég að heyra hvernig vagnar hafi verið á undan eða eftir áætlun eða jafnvel ekki látið sjá sig. Og alltaf sannfærist ég betur um að það hafi verið rétt ákvörðun að slíta þessu rysjótta viðskiptasambandi.

En hvað er þá til ráða? Jú, ég velti því fyrir mér að kaupa rafhjól. Eða að halda áfram að ganga. Slíku atferli fylgir þó sá galli að maður heldur áfram að anda að sér því svifryki sem dekknegldir bílar þeyta upp helming ársins.

Gangan ofan í Elliðaárdalinn úr Breiðholti er vissulega heilsusamleg en gangan þaðan og yfir Suðurlandsveginn hefur ef til vill þegar stytt ævi mína um nokkra mánuði, ef litið er til meðaltala.

Talið er að um 80 ótímabær dauðsföll megi árlega rekja til svifryksmengunar á Íslandi. Þeir sem draga andann utandyra, í kyrrviðri á vetrardögum, borga með heilsu sinni reikning þeirra sem bruna framhjá þeim og spæna upp þurrt malbikið.

Spáið í það. Við höldum börnum innandyra á leikskólum á fegurstu vetrardögunum, bara svo við getum haldið áfram að spæna upp malbikið á nagladekkjum, sem í tilviki langflestra eru óþörf. Íslenskt samfélag mun fyrr gefa börnunum gasgrímur til að leika úti en að gefa upp nagladekkin.

En sannast sagna nennti ég heldur ekki öðrum vetri af því að strita við að komast til vinnu. Nóg er stritið nú þegar.

Og jú, ég hefði getað keypt ódýrari bíl. Notaðan bíl jafnvel. En þegar ríkisstjórnin niðurgreiðir nýja rafbíla um 1,3 milljónir króna þá er það óneitanlega freistandi að ganga að því boði. Ég er að minnsta kosti ekki einn um að líta svo á, ef marka má sölutölur síðustu mánaða.

Og nei, ég er ekki á nagladekkjum. En ég vil endilega halda áfram að tala um Strætó. Hvað var eiginlega að Strætó-appinu? Af hverju var hundruðum milljóna steypt ofan í annað app?

Ár er nú liðið frá því Strætó bs. viðurkenndi að lykilatriði greiðslukerfis þess, skannar Klapp-appsins sem notaðir eru í vögnunum, virkuðu illa og að til stæði að skipta þeim öllum út.

Alvarleg mistök virðast hafa verið gerð með kaupum og innleiðingu á greiðslukerfi Strætó bs., að því er fram kom í kynningu Strætó á ársfundi byggðasamlagsins í fyrra. Farþegar Strætó hafa enda ítrekað kvartað undan greiðslukerfinu síðan það var tekið í notkun fyrir um tveimur árum.

Þegar ég hef neyðst til að skipta við Strætó hef ég oft orðið var við að mun lengri tíma tekur fyrir farþega að fara um borð en áður. Eru þeir þá hver af öðrum að berjast við að láta skanna vagnsins nema QR-kóða í símanum sínum, sem af einhverjum ástæðum er ekki látinn fylla út í skjáinn eins og tíðkast í notendavænum öppum.

Í meira en tvo áratugi hefur Ísland verið í fararbroddi við innleiðingu greiðslukortalausna. Í það minnsta þarf varla reiðufé hér á landi og hefur varla þurft í tuttugu ár.

Af hverju ekki posakerfi?

Upplýsingafulltrúi Strætó var því spurður, fyrir tveimur árum, eða í desember 2021:

Hvers vegna ekki að innleiða hefðbundið posakerfi?

„Ástæðan fyrir því að venjuleg posakerfi eru sjaldan notuð í almenningssamgöngum úti í heimi er í raun bara til að spara tíma. Í flestum tilvikum eru notaðir skannar til að flýta fyrir greiðslunni eins og maður sér í Lundúnum og víðar. Það er bara miklu fljótlegra. Við sjáum þó fram á það að fólk geti farið að borga snertilaust í strætó með kortum, Apple Pay og Samsung Pay á næsta ári. Þá verður þetta orðið ennþá aðgengilegra. Þetta er allt að koma.“

Rétt’ upp hönd sá sem hefur borgað með korti, Apple Pay eða Samsung Pay fyrir strætóferð í ár. Eða á síðasta ári, eins og upplýsingafulltrúinn nefndi. Ætli hann hafi meint árið 2024, þegar hann sagði „á næsta ári“ árið 2021?

Strætó úthýst við Leifsstöð

Þetta greiðslukerfi þvælist nefnilega meira fyrir en Íslendingur gæti í fljótu bragði haldið. Fjöldi ferðamanna hér á landi er á hverju ári talinn í milljónum. En sumir þeirra villast upp í vagna Strætó bs., eins og dæmin að ofan sanna.

Strætó er að vísu úthýst við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli, á sama tíma og valin rútufyrirtæki fá þar greiðan aðgang að flugstöðinni. Og rati ferðamenn þangað þurfa þeir að hírast í litlu skýli, eða utan þess, séu þeir fleiri en þrír. En þegar stigið er um borð í vagninn, hvernig á þá að borga? Nú, með appinu. En með hvoru appinu? Jú, þessu nýja sem kostaði 330 milljónir króna.

Hér tek ég fram að ég hef lengi verið yfirlýstur stuðningsmaður borgarlínunnar. Hvað felst í því? Ég styð einfaldlega að tíðni strætóferða verði aukin og að sérakreinar fyrir stætisvagna leyfi þeim að komast hjá umferðarteppum af völdum einkabílsins.

Þessu hafa margir verið andsnúnir, þrátt fyrir að tilkoma bættra almenningssamgangna ætti að gefa einkabílnum meira rými og stuðla að því að allir, þar á meðal bílstjórar sem eru einir á ferð í umferðinni, komist fyrr leiðar sinnar.

Oft vill það gleymast að borgarlínan var aðeins hluti samgöngusáttmálans sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir haustið 2019, fyrir fjórum árum. Samkvæmt sáttmálanum átti að verja meira fé í stofnvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en í innviði borgarlínu og almenningssamgöngur.

Lítið bólar á borgarlínunni

Þróun og uppbygging húsnæðis á Keldnalandinu átti að standa undir stórum hluta kostnaðar við sáttmálann. Þá var gert ráð fyrir að með álagningu nýrra umferðargjalda mætti fjármagna samgönguframkvæmdirnar.

Lítið hefur bólað á því. Raunar hefur lítið bólað á borgarlínu yfirhöfuð. Á sama tíma er framkvæmdum lokið við fjögur af þeim ellefu stofnvegaverkefnum sem sáttmálinn kvað á um. Fimmta verkefnið er síðan hafið, sem er framlenging á Arnarnesveginum byggð á tveggja áratuga gömlu umhverfismati. Og nú kalla sumir eftir því að samgöngusáttmálinn verði endurskoðaður. En samt bara borgarlínuhluti sáttmálans.

Nú hillir þó undir að einhver hluti borgarlínunnar fari að taka á sig mynd, þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist bráðlega við gerð 270 metra langrar brúar yfir Fossvoginn.

Var í alvöru ekki hægt að byrja annars staðar og þá miklu fyrr? Hversu lengi á fólk að bíða eftir sérakreinum fyrir strætisvagna á fleiri stofnvegum höfuðborgarsvæðisins? Hversu lengi á fólk að bíða eftir aukinni tíðni strætisvagna og bættu leiðakerfi?

Krúnudjásn en engin kóróna

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ehf., segir í nýlegum pistli að brúin verði „krúnudjásnið“ í framkvæmdum samgöngusáttmálans. Að mínu mati hefði betur farið á því að smíða fyrst sjálfa kórónuna, áður en hafist er handa við krúnudjásnið.

Nú verður þetta krúnudjásn án kórónu og því miður virðist óvissa uppi um þær framkvæmdir sem telja verður mun nauðsynlegri til að koma bættum almenningssamgöngum á laggirnar.

Ég hef að minnsta kosti gefist upp á biðinni eftir borgarlínunni. Eins og mér leist nú vel á fyrirhugaða legu borgarlínunnar upp í Breiðholt, rétt við íbúðina mína, þegar ég festi kaup á henni á sínum tíma. Og verði af borgarlínunni, sem mér finnst alls óvíst eins og staðan er núna, vona ég að minnsta kosti að fyrirbærið Strætó bs. verði þar víðs fjarri.

Hvernig gafst ég upp? Ég keypti bíl. Já, nú erum við komin hring. En þetta er bílablað og ég get því ekki sleppt því að minnast á farkostinn.

Einn bíll stóð einfaldlega upp úr þegar litið var yfir …
Einn bíll stóð einfaldlega upp úr þegar litið var yfir bíladóma síðustu ára. Reynsluakstursbíllinn sést hér á myndinni en ekki reyndist unnt sökum anna að mynda nýja gripinn, sem er stálgrár að lit. mbl.is/Árni Sæberg

Einn bíll stóð upp úr

Við val á bíl ákvað ég að renna yfir þá bíla sem ég hef tekið til reynsluaksturs fyrir bílablaðið á síðustu árum. Við yfirferðina stóð einn bíll einfaldlega upp úr: EV6 frá Kia. Svo ég grípi niður í dóm minn frá því fyrir tveimur árum:

„Ef ökumaður er fyrst og fremst vanur hefðbundnum og tiltölulega ódýrum jarðefnaeldsneytisbílum, þá eru viðbrigðin töluverð. Vænlegt bil, sem opnast á milli bíla einhverri vegalengd framar á Miklubrautinni, og maður hefði eitt sinn horft löngunaraugum til, er maður fljótur að fylla á öflugum rafbíl eins og þessum.

Og EV6 steinliggur á veginum þegar tekið er á honum í beygjum. „Eins og majónesklessa,“ hafði farþegi á orði, þar sem ekið var um hlykkjóttan veg í útjaðri höfuðborgarinnar. Þyngd bílsins hefur þar nokkuð að segja, en hann vegur rúm tvö tonn.

Fjöðrunin er aftur á móti framúrskarandi, sem gerir það að verkum að þrátt fyrir þyngdina er hann alls ekki þunglamalegur. Þvert á móti er stýrið létt og bíllinn bæði snarpur og snar í snúningum, en beygjuradíusinn var til að mynda minni en blaðamaður hafði búist við.

Stuttur spölur var tekinn á malarvegi og var varla að finna að maður væri kominn af malbikinu, svo mjúkur var hann í akstrinum. Ánægjulegt var sömuleiðis að finna, í öllum akstrinum, að veghljóð var nær ekkert. Ljóst er að bíllinn er vel hannaður og einangraður upp á það að gera.“

Geggjaður bíll og gildir enn

Tveimur árum síðar get ég fullyrt að dómurinn stenst tímans tönn. Það gerir útlitið líka. Svo ég grípi aftur niður í dóminn í nóvember 2021:

„Það var ljóst að bíllinn vakti þónokkra athygli á þeim annars skamma tíma sem blaðamaður keyrði hann um suðvesturhornið.

Seint að kvöldi síðasta laugardags, þegar blaðamaður hafði numið staðar í stæði við fjölfarna götu, heyrði hann skyndilega hávær köll út undan sér. Í ljós kom að skammt frá, á götunni, höfðu nokkrir ungir drengir stöðvað förina á sínum bensínknúna jeppa til þess eins að dást að þessu greinilega framandi farartæki.

„Geggjaður bíll!“ tjáðu þeir blaðamanni, sem sagði þeim aðspurður að hann hefði ekki keypt gripinn heldur væri hann í reynsluakstri. Fleiri aðdáunarorð fylgdu, auk spurningar sem hér verður ekki talin prenthæf, en verður samt sem áður talin bílnum til tekna.“

Enn má taka undir með strákunum. Bíllinn er hreinlega geggjaður.

Tóm hlýja mætir manni þegar maður sest í bílinn á …
Tóm hlýja mætir manni þegar maður sest í bílinn á köldum morgni. mbl.is/Árni Sæberg

Þægindalíf og auðvelt að skreppa

Það er óneitanlega þægileg tilfinning að teygja sig í símann á morgnana og að tveimur smellum síðar sé bíllinn byrjaður að hita rúður, stýri og innanrými. Og að geta í hádeginu á laugardegi ákveðið að fara í fjallgöngu fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Eða að þurfa ekki að fá bíl lánaðan til að skjótast í bústað í Borgarfirðinum yfir helgi.

Að bíllinn sé rafmagnsknúinn bætir svo nýrri vídd við upplifunina. Samgöngukostnaðurinn er í lágmarki, ef frá er talið allt hitt sem vissulega fylgir því að eiga og reka bíl. Bensínstöðvarstoppin eru heldur engin.

Það er í það minnsta víst að ég horfi ekki í baksýnisspegilinn með söknuði. Og ef ég verð aftur bíllaus einhvern tíma í framtíðinni, þá er það líklega af því að ég verð þá aftur fluttur til útlanda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina