Finna bíla sem oft eru ekki í boði á Íslandi

Ignacio og Dovydas við fyrirtakseintak af Audi sem þeir fluttu …
Ignacio og Dovydas við fyrirtakseintak af Audi sem þeir fluttu inn. Kaupandinn var hæstánægður. Eggert Jóhannesson

Það getur útheimt töluverða vinnu og útsjónarsemi – en stundum má gera verulega góð kaup með því að finna notaða bíla erlendis og flytja þá til landsins. Er samt margt sem þarf að varast og segir Ignacio Edvard Mósesson að það sé sérstaklega áhættusamt að kaupa notaða bíla af einstaklingum frekar en af bílasölum.

Ignacio rekur bílainnflutningsfyrirtækið DS Bíla í félagið við Dovydas Strasunskas en þeir sérhæfa sig í innflutningi einkar áhugaverðra bifreiða – eða „sérbíla“ eins og Ignacio kallar ökutækin. „Viðskiptavinurinn tilgreinir hvers konar bíl hann hefur í huga og hve miklu hann er tilbúinn að eyða í kaupin, og hefjum við þá rannsóknarvinnuna í samræmi við hvað fjárhagsáætlunin leyfir. Þetta getur verið langt ferli og stundum hefur það tekið okkur allt að hálft ár að finna einmitt rétta ökutækið.“

Þeir félagar settu DS Bíla á laggirnar árið 2022 en fluttu áður inn bíla til eigin notkunar. „Í Evrópu kaupum við bara af bílasölum, einkum í Þýskalandi, og pössum vandlega upp á að bílarnir séu með svokallaða TÜV-skoðun. Þýskaland er með mjög strangar reglur hvað viðkemur ástandsskoðun bifreiða og með varnir gegn sölusvikum, og fyrir vikið er auðveldara að treysta þýskum seljendum.“

Er þó ekkert sem heitir að geta verið þess fullviss að notaður bíll sé laus við leynda galla og segir Ignacio að endrum og sinnum hafi hann setið uppi með slæmt eintak, en reynslan hafi kennt sér að áhættan sé alltaf meiri þegar bifreið er keypt beint af fyrri eiganda.

Merkilegt nok leggja DS Bílar megináherslu á innflutning frá Japan. „Hann Dovydas er alltaf á höttunum eftir góðum kaupum og uppgötvaði að haldin eru bílauppboð í Japan þar sem oft má finna notaðar evrópskar lúxusbifreiðar á kostakjörum,“ útskýrir Ignacio. Er um að ræða bíla sem japanskir bílaáhugamenn hafa flutt inn frá Evrópu og eru með stýrið vinstra megin þó svo að í Japan sé vinstriumferð. „Í Japan gilda óvenjulegar reglur um hve mikið má aka innfluttum bílum ár hvert, og greiða þarf tolla þegar bifreiðum er ekið á milli landshluta, og fyrir vikið eru þau ökutæki sem um ræðir yfirleitt frekar lítið ekin og vel með farin.“

Ef lesendur skyldu hugsa sér gott til glóðarinnar þá er þátttaka í bílauppboðunum í Japan aðeins opin þeim sem hafa þar búsetu og bjóða DS Bílar í bifreiðarnar með milligöngu japansks samstarfsaðila sem einnig sér um að yfirfara bílana rækilega að uppboði loknu og ganga frá öllu sem snertir útflutning bifreiðanna frá Japan. „Uppboðin hefjast yfirleitt á mjög lágu verði og það hefur komið fyrir að við höfum getað tryggt okkur bíla á helmingi lægra verði en við áttum von á að þurfa að greiða, en alla jafna geta viðskiptavinir vænst þess að spara á bilinu 20-30% af því sem sambærilegur bíll hefði kostað á Íslandi ef svona bílar væru yfirhöfuð fáanlegir á notaða markaðinum,“ útskýrir Ignacio en bifreiðarnar sem um ræðir eru einmitt í verð- og gæðaflokki sem fátítt er að fluttur sé til landsins beint úr verksmiðju framleiðanda. „Það flækir verðsamanburðinn að þeir bílar sem við flytjum inn eiga oft engan sinn líka á landinu, og hafa þá í besta falli verið fluttir inn í tveimur eða þremur eintökum og eru almennt ekki í boði notaðir,“ segir Ignacio.

Dúbaí er ekki inni í myndinni

Stærsti gallinn við að finna bílana alla leið austur í Japan er að afhendingartíminn er langur. Ignacio segir að bíll sem keyptur er í Evrópu geti verið klár til afhendingar á Íslandi á einum mánuði en reikna megi með að ferðalagið frá Japan taki fjóra mánuði. „Tímann notum við til að ganga frá pappírsvinnunni en þegar bílar eru sendir frá Japan til Evrópu þarf að fylgja þeim svokölluð tækniskýrsla, og getur verið svolítið púsluspil að ganga frá öllum lausum endum.“

Spurður hvort það sé hægt að flytja inn bíla hvaðan sem er í heiminum segir Ignacio að sum lönd séu erfiðari viðfangs en önnur. „Við höfum t.d. reynt að flytja inn bíla frá Dúbaí en það hefur reynst nær ógerlegt. Er skýringin m.a. sú að oft hefur verið átt töluvert við bílana svo að þeir þoli betur hitann og sandinn. Þá verður einnig að gæta að því við innflutninginn að bifreiðin fari ekki yfir mengunarviðmið ESB því það býr til ný vandamál.“

Það er hægt að fjármagna kaupin hjá DS Bílum en þó aðeins eftir að bifreiðin er komin til landsins. „Viðskiptavinir okkar geta vitaskuld tekið annars konar lán en bílalán til að brúa bilið, en greiða þarf helming heildarkostnaðar fyrir fram og afganginn við afhendingu. Um fjármögnun með bílalánum gilda síðan tilteknar reglur um hámarksaldur bílsins og hámarkslánstíma og ef t.d. viðskiptavinur vill flytja inn 10 ára gamla bifreið er að hámarki hægt að dreifa afborgunum bílalánsins á fimm ár.“

DS Bílar taka hóflegt gjald fyrir að hafa milligöngu um kaupin og segir Ignacio að viðskiptavinir njóti m.a. góðs af því að félagið taki á sig áhættuna af óvæntum göllum. „Það hefur gerst að við komuna til landsins reynast bílarnir ekki eins og búist var við og lendir það þá á okkur að gera við og lagfæra eins og þörf er á hverju sinni. Eins er það undir okkur komið að ganga úr skugga um að bíllinn standist skoðun og engir annmarkar séu á því að hann geti farið beint út í umferðina þegar kaupandinn hefur fengið lyklana í hendurnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: