Hver væri draumastaðan að mati Páls?

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum Fangelsismálastofnunar er að finna ýmiss atriði sem Ríkisendurskoðun segir betur mega fara. Eitt af stóru atriðunum þar er aðstaðan á Litla-Hrauni, sem er jafnvel talin svo slæm að það ógni heilsu starfsfólks og fanga.

Þar horfir þó til betri vegar, en tilkynnt hefur verið að byggja eigi nýtt fangelsi á Litla-Hrauni í staðinn fyrir núverandi fangelsi. Það eru þó um fimm ár í að slíkt fangelsi liti dagsins ljós, gangi áætlanir eftir.

Í skýrslunni er einnig gagnrýnt að uppbygging Litla-Hrauns hafi aldrei einkennst af heildar- eða langtímasýn um starfsemina. Er bent á að aðeins sé vistunarúrræði fyrir konur á Hólmsheiði og fangelsinu Sogni, en Ríkisendurskoðun telur varasama ráðstöfun að vista konur til lengri tíma á Hólmsheiði, enda sé það öryggisfangelsi og skammtímaúrræði. Þá sé við stækkun á Sogni sé ekki komið að fullu til móts við ábendingar sem tryggi konum úrræði við hæfi, meðal annars með fullkomnum aðskilnaði kynja.

Til stendur að nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns verði með um 100 rými fyrir fanga. Þá er unnið að stækkun á Sogni, en er það nóg? Ef fangelsismál yrðu sett í efsta forgang, hvað myndi yfirmaður fangelsismála vilja sjá gert þegar kæmi að húsnæðiskosti fangelsa á Íslandi?

Spurður hver væri draumastaða ef hægt væri að koma upp fangelsis- og vistunarúrræðum miðað við núverandi og framtíðar þörf, án þess að þurfa að taka mið af mögulegum kostnaði, segir Páll Winkel fangelsismálastjóri að þrennt kæmi þar til. Ítrekar hann að í þessari draumastöðu þyrfti einnig að fylgja fjármagn til mönnunar, en eins og greint hefur verið frá næst ekki full nýting í núverandi fangelsum vegna fjármögnunarvanda.

Fremst í röðinni segir Páll að byggja nýtt fangelsi þar sem Litla-Hraun sé, en í stað um 100 klefa segir hann að hann myndi horfa til um 150 klefa.

Í öðru lægi segist hann fagna þeim áformum sem séu í gangi með stækkun á Sogni, en að til viðbótar þurfi sérstakt fangelsi og áfangaheimili fyrir konur þar sem veitt yrði þjónusta sem auki líkur á að fólk láti af afbrotahegðun. Á hann þar við sálfræðinga, vímuefnaráðgjafa og félagsráðgjafa, auk fangavarða. Segir hann að samtals væri um 10 stöðugildi að ræða fyrir 10-15 rými í lokuðu fangelsi og 10-15 rými í opnu fangelsi.

Að lokum nefnir hann að fara þyrfti í endurbætur á Kvíabryggju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert