Nýta ekki fjölda rýma vegna skorts á fjármagni

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar,
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, mbl.is/Árni Sæberg

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Fangelsismálastofnunar vera gríðarlega mikilvægt stefnuplagg fyrir íslensk stjórnvöld um þennan málaflokk. Hann bendir á að skorið hafi verið niður til fangelsismála í 21 ár á sama tíma og refsingar þyngist, föngum fjölgi og hópurinn sem þurfi að þjónusta verði erfiðari. Á hverjum tíma eru um 10% fangarýma ónýtt vegna skorts á fjármagni.

Hann segir þegar búið að ráðast í tvö af þeim þremur atriðum sem Ríkisendurskoðun bendi á í skýrslunni, en erfitt sé að mæta áskorunum í mannauðsmálum við núverandi fjárheimildir og aðstöðu í fangelsum. 

Í skýrslunni segir Ríkisendurskoðun að ýmsu í starfsemi og starfsumhverfi Fangelsismálastofnunar sé ábótavant sem valdi því að íslenskt fullnustukerfi sé ekki rekið með þeirri skilvirkni eða árangri sem lög gera ráð fyrir. Ekki hef­ur verið mótuð nein heild­ar­stefna á sviði fulln­ustu­mála og rekst­ur Fang­els­is­mála­stofn­un­ar hef­ur verið þung­ur sem meðal ann­ars hef­ur leitt til und­ir­mönn­un­ar og upp­safnaðri viðhaldsþörf fang­elsa. Illa geng­ur einnig að stytta boðun­arlista og að óbreyttu munu þeir lengj­ast.

Aðhald í yfir tvo áratugi meðan verkefnum fjölgar

„Til að byrja með er mjög mikilvægt að taka fram að ég er gríðarlega ánægður með þessa skýrslu vegna þess að þarna er um að ræða hóp óháðra sérfræðinga með ólíkan bakgrunn sem komast að niðurstöðu um stöðuna í fangelsismálum. Greina hvað er að, hvað þarf að gera, hver ber ábyrgð á því og hvers vegna þurfi að gera það. Þetta er gríðarlega mikilvægt stefnuplagg fyrir íslensk stjórnvöld og tækifæri til að bregðast við í þessum málaflokki,“ segir Páll spurður um hvað hann taki út úr þessari skýrslu.

Segir hann fjárframlög ítrekað hafa verið lækkuð til fangelsismála og að það hafi átt við síðustu 21 ár. „Á sama tímabili hafa refsingar þyngst um 75%, skipulögð glæpastarfsemi skotið niður rótum og afbrot aukist að verulegu leyti, auk þess sem þjónusta þarf að vera betri við sífellt erfiðari hóp.“

Páll segist samt telja að allar ríkisstofnanir hafi gott af því að fá á sig aðhaldskröfu reglulega. „Við erum að sýsla með opinbert fé, fé almennings og okkur ber að athuga hvort við getum gert og það er alltaf hægt um ákveðinn tíma. En þessi skýrsla er að undirstrika að það er ekki hægt að gera það í tvo áratugi nema eitthvað gefi eftir þegar verkefnin aukast.“

Aðfinnslur sem þegar hefur verið brugðist við

Þær ábendingar sem beint er að Fangelsismálastofnun sérstaklega í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru meðal annars um úr sér gengna gagnagrunna sem erfitt sé að kalla fram tölfræðigögn úr og skort á menntun og endurmenntun fyrir fangaverði.

Páll segir fyrra atriðið þegar komið í vinnslu með aukafjárveitingu í fyrra og að gagnagrunnurinn verði tekinn í notkun í byrjun næsta árs. Þá hafi skortur á námi fyrir fangaverði verið meðvituð ákvörðun stjórnvalda varðandi niðurskurð. Nú ætli ráðuneytið hins vegar að veita fjármuni svo menntasetur lögreglu taki námið yfir og er áætlað að það hefjist strax í janúar.

„Væri mjög skrítið ef það væri almenn ánægja um þetta“

Þriðji punkturinn lýtur að áskorun í mannauðsmálum, en meðal annars er talað um að vinnustaðamenning Fangelsismálastofnunar standi höllum fæti og að álag hafi aukist samhliða slæmum aðbúnaði fangavarða í fangelsum. Páll segir að það væri sérstakt í svona aðstæðum ef ekki væru áskoranir í mannauðsmálum. „Erum að tala um fólk sem er að vinna eina erfiðustu vinnu sem um getur – að halda uppi lögum og reglu í fangelsum. Þau eru undirmönnuð og hafa haft lítið aðgengi að menntun og endurmenntun og eru að vinna í húsnæði þar sem eru áhöld um hvort megi halda opnu. Það væri mjög skrítið ef það væri almenn ánægja um þetta.“

Páll segir að meðal þeirra leiða sem stofnunin hafi farið undanfarna tvo áratugi til að mæta hagræðingarkröfum sé að fækka stjórnendum talsvert. Nú sé það svo að í skýrslunni sé gerð athugasemd við fáa stjórnendur og vítt stjórnendahlutverk hvers og eins. „Við gátum og okkur tókst í mörg ár að skera niður og fara betur með það fé sem okkur var treyst fyrir. Það er ekki eingöngu að það sé komið að þanmörkum hvað það varðar, heldur líka, eins og ríkisendurskoðun bendir á, mikilvægt að koma á heildarstefnumótun í þessum málaflokki.“

Bendir Páll á að í skýrslunni sé tekið fram að auk dómsmálaráðuneytinu þurfi aðkomu bæði heilbrigðisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins þegar komi að málefnum fanga. Segir hann að fyrir utan dómsmálaráðuneytið hafi hin ráðuneytin ekki sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga. Reyndar hrósar Páll sérstaklega síðustu þremur dómsmálaráðherrum sem hann segir hafa sýnt málaflokknum mikinn skilning. Fagnar hann því skýrslunni og segir nú kærkomið tækifæri fyrir stjórnvöld að laga til í málaflokknum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er meðal annars aðstaðan á Litla-Hrauni gagnrýnd …
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er meðal annars aðstaðan á Litla-Hrauni gagnrýnd harðlega og starf­sem­in aðeins sögð að hluta uppfylla nú­tíma­kröf­ur um ör­ygg­is­mál og end­ur­hæf­ingu fanga í fang­els­um. Ómögu­legt sé að aðskilja fanga með full­nægj­andi hætti, sem sé meg­in ástæða þess að of­beld­is- og fíkni­efna­mál séu viðvar­andi vanda­mál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú þurfi að forgangsraða fangelsismálum mjög ofarlega“

Spurður hvort ekki sé slæm stjórnsýsla að bíða eftir úttektarskýrslum áður en farið er í úrbætur í stað þess að stjórnvöld hafi frumkvæði af því, sérstaklega í ljósi þess að lengi hefur verið bent á brotalamir í fangelsismálakerfinu segist Páll telja svo vera. Hann segir að önnur verkefni hafi hingað til þótt meira aðkallandi.

„Ég skil að það þurfi að forgangsraða, en þessi skýrsla segir mér að nú þurfi að forgangsraða fangelsismálum mjög ofarlega og það þarf að fjölga bæði fangavörðum og sérfræðingum svo við getum haldið uppi lögum og reglum og náð betri árangri.“

Hendur bundnar af veitingu fjármuna

Páll hefur nú verið fangelsismálastjóri í 16 ár, eða frá árinu 2007. Tekur hann eitthvað af gagnrýni skýrslunnar til sín, eða telur hann aðallega um fjárveitingarvandamál að ræða? „Okkur ber að taka til okkar allt sem okkar er. Þetta er klárlega hluti af því og við viljum gera betur, en hendur okkar eru nokkuð bundnar af veitingu fjármuna og það spilar inn í þetta. En auðvitað þurfum við að gera betur og við höfum áætlanir um það. En oft er það háð fjármagni,“ svarar hann.

Fjöldi rýma ónýtt á hverjum tíma

Eitt af því sem kemur fram í skýrslunni er að raunaukning afplánunarrýma hafi í raun verið lítil undanfarin ár þrátt fyrir tilkomu fangelsis á Hólmsheiði. Spurður út í þessar ástæður segir Páll það komið til þar sem fjárhagsstaðan sé tekin fyrir mánaðarlega og boðunum hagað miðað við fjárhag. Hefur staðan oft verið þannig að þegar líður á árið sjái stofnunin fram á halla og þar sem beri að skila árinu án halla, þá sé dregið úr boðunum og streyminu því stýrt þannig að það sé í takti við fjármagn sem er til umráða.

„Við erum með jafn marga fanga og við höfum efni á að hafa,“ segir Páll og bætir við: „Stundum þyrftum við fleiri klefa, en oftar en ekki getum við ekki keyrt þetta á fullum afköstum vegna þess að við höfum ekki fjármagn til þess.“

Hann segir nýtingu á fangelsisrýmum hafa verið um 77-88% undanfarin ár, en að hægt væri að keyra fangelsin á 90-95% nýtingu við full afköst. Stofnunin hefur í dag um 180 rými til umráða og því segir Páll að ónýtt rými séu um 10-18 að meðaltali sem ekki séu notuð vegna skorts á fjármagni til mönnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert