Vilja að borgin kalli eftir niðurstöðum úr PISA

Tekið er fram að lægra hlutfall barna hér á landi …
Tekið er fram að lægra hlutfall barna hér á landi búi yfir grunnhæfni og afburðahæfni, borið saman við meðaltal Norðurlandanna og OECD. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg á að kalla eftir niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá Menntamálastofnun, fyrir hvern grunnskóla borgarinnar, og gera þær aðgengilegar skólastjórnendum.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur þetta til, en Hildur Björnsdóttir oddviti flokksins hyggst leggja tillöguna fyrir fund borgarstjórnar í dag.

Tillagan kemur í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is, en Morg­un­blaðið greindi frá því á föstu­dag að mennta­mála­yf­ir­völd Finn­lands og Eist­lands upp­lýstu grunn­skóla ríkj­anna um ár­ang­ur þeirra í PISA-könn­un­inni.

Finn­land er efst Norður­landa en Ísland er þeirra neðst. Eistland er efst Evrópuríkja.

Geta lagt ríkari áherslu á grunnþekkingu

Áður hafði Morg­un­blaðið fjallað um hvernig Mennta­mála­stofn­un hef­ur neitað að upp­lýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveim­ur könn­un­um, árin 2022 og 2018.

Loks sagði menntamálaráðherra Eistlands í samtali við mbl.is á sunnudag að mik­il­vægt væri að upp­lýsa grunnskól­a um gengi nem­enda þeirra, til að skól­arn­ir geti metið styrk­leika sína og horft til þess sem þarf að bæta.

Ráðherrann, Kristina Kallas, sagði þetta mik­il­vægt til að skól­arn­ir gætu áttað sig á því hversu marg­ir nem­end­ur þeirra væru und­ir meðaltali.

Séu marg­ir nem­end­ur und­ir meðaltali, til að mynda í stærðfræði, þá geta skól­arn­ir lagt rík­ari áherslu á grunnþekk­ingu nem­enda í fag­inu, til að nem­end­urn­ir geti raun­veru­lega haldið áfram að afla sér þekk­ing­ar, sagði Kallas.

Það vekur áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari …
Það vekur áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu komi verr út í könnuninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bera íslensku skólakerfi ekki fagurt vitni

Í greinargerð með tillögu sjálfstæðismanna segir að niðurstöður PISA-könnunarinnar beri íslensku skólakerfi ekki fagurt vitni, en könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði.

„Niðurstöðurnar sýna versnandi árangur íslenskra skólabarna og ættu að valda borgarstjórn töluverðum áhyggjum,“ segir í greinargerðinni.

„Ísland mælist undir OECD-meðaltali í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Sé einungis litið á árangur grunnskólabarna í Reykjavík mælist færni þeirra jafnframt undir OECD-meðaltali og Norðurlandameðaltali í öllum mældum þáttum.“

Færri með grunnhæfni og færri sem bera af

Tekið er fram að lægra hlutfall barna hér á landi búi yfir grunnhæfni og afburðahæfni, borið saman við meðaltal Norðurlandanna og OECD. Niðurstöðurnar sýni jafnframt að lægra hlutfall drengja nái grunnhæfni í bæði lesskilningi og læsi á náttúruvísindi.

„Þannig ná 61% drengja grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi á móti 68% stúlkna. Kynjamunurinn er meiri þegar kemur að lesskilningi en þar ná 53% drengja grunnhæfni á móti 68% stúlkna. Þó má undirstrika að hvort sem litið er til stúlkna eða drengja, er niðurstaðan óviðunandi.“

Enn fremur segir í greinargerðinni að það veki áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu komi verr út í könnuninni.

„Merki eru um að ójöfnuður aukist hvað varðar námsárangur á Íslandi, einkum í lesskilningi. Þessi niðurstaða er skýrasta birtingarmynd þess að ekki megi varpa ábyrgðinni alfarið á heimilin, enda hafa ekki öll börn slíkan stuðning heima fyrir.“

Í greinargerðinni segir að ástæða sé til að líta niðurstöður …
Í greinargerðinni segir að ástæða sé til að líta niðurstöður úr PISA-könnun síðasta árs alvarlegum augum. mbl.is/Árni Sæberg

Gaf áþreifanlegt tækifæri til framfara

Bent er á að eftir kannanirnar árin 2012 og 2015 hafi niðurstöður legið fyrir sem svo voru sundurgreindar niður á hvern skóla í Reykjavík.

„Niðurstöðurnar gáfu skólastjórnendum tækifæri til að greina hvar úrbóta var þörf í þeirra skólastarfi og hvaða umbætur gætu reynst nauðsynlegar. Gaf upplýsingagjöfin mörgum skólum áþreifanlegt tækifæri til framfara, en ráðist var í ýmsar aðgerðir á grundvelli niðurstaðnanna sem skiluðu raunverulegum árangri,“ segir í greinargerðinni.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, hefur vakið máls á því sama.

„Við sáum bara hvar skór­inn kreppti og hvar ekki,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

„Það sýndi sig að það bætti ár­ang­ur. Svo biðum við spennt eft­ir því að sjá okk­ar niður­stöður árið 2018, en þá var okk­ur hafnað. Ég hafði sam­band við OECD og þau sögðu að við vær­um auðvitað í frá­bærri stöðu til að nýta niður­stöðurn­ar.“

Skólakerfi borgarinnar fær slæma einkunn

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks segjast telja nauðsynlegt að grunnskólar Reykjavíkur fái fleiri tækifæri til að vinna eftir mælanlegum markmiðum í sínu skólastarfi.

„PISA-könnunin er gagnleg mæling á skólakerfum innan OECD, sem því miður hefur gefið skólakerfi Reykjavíkur slæma einkunn,“ segir í greinargerðinni.

„Kostir þess að afla frekari upplýsinga um niðurstöður grunnskóla Reykjavíkur í PISA 2022 eru fjölmargir, en með upplýsingaöfluninni mætti gefa skólastjórnendum öflugt tæki til að greina vankanta í skólastarfinu og ráðast í umbætur.“

Mennta­mála­stofn­un hef­ur neitað að upp­lýsa skóla um gengi þeirra í …
Mennta­mála­stofn­un hef­ur neitað að upp­lýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveim­ur könn­un­um. mbl.is/​Hari

Tæplega 66 milljarðar í skólakerfið á næsta ári

Ástæða sé til að líta niðurstöður úr PISA-könnun síðasta árs alvarlegum augum.

„Niðurstöðurnar mæla skólakerfi borgarinnar undir OECD-meðaltali og meðaltali Norðurlanda í öllum mældum greinum. Það er ábyrgðarhluti að þeir sem fara með pólitískt ákvörðunarvald bregðist við slíkum niðurstöðum af þunga.

Reykvískir skattgreiðendur munu á næsta ári verja tæplega 66 milljörðum í kerfi leik- og grunnskóla í borginni, en bæði kerfi hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að málþroska og læsi barna.

Það er eðlilegt að borgarstjórn geri þá kröfu að kerfin sem við stýrum og fjármögnum skili árangri. Til þess þarf að nýta aðgengilegar upplýsingar svo skólarnir geti sett sér mælanleg markmið í þágu umbóta og framfara.

Skólakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem íslenskt samfélag býr yfir. Það er mikilvæg grunnstoð sem verður að geta tryggt öllum börnum þá grunnfærni sem reynast mun nauðsynleg svo þau geti notið jafnra tækifæra og orðið virkir þátttakendur í okkar samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert