Ekkert land lækkar meira en Ísland

Niðurstöður Pisa-könnunarinnar 2022 kynntar. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra,
Niðurstöður Pisa-könnunarinnar 2022 kynntar. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar horft er á heildarniðurstöðu úr Pisa-könnuninni 2022 sést að Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-ríkjanna. Aðeins Grikkland, Chile, Mexíkó, Kosta ríka og Kólumbía eru lægra á blaði en Ísland. Ekkert OECD-ríki lækkar jafn mikið milli ára og Ísland.

Þetta er meðal þess sem má sjá þegar borinn er saman árangur ríkjanna í þeim þremur greinum sem prófað er í, en niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í morgun.

Hvað er Pisa?

Í Pisa-könnuninni er skoðuð hæfni nemenda víða um heim í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Hæfni nemenda er áætluð með samfelldum stöðluðum mælikvarða, en til viðmiðunar er hæsta meðaltal OECD-ríksi 533 stig og lægsta meðaltalið 401 stig.

Samkvæmt skýrslu Menntamálastofnunar er heildarfjöldi Pisa-stiga í hverju landi meðaltal sem segir til um áætlaða hæfni þátttakenda í landinu í heild. Pisa-skalinn byggir á svörum þátttakenda við prófverkefnunum og hann er notaður bæði til að áætla hæfni þátttakenda og þyngdarstig einstaka prófverkefna.

Hvað mælir Pisa-skalinn?

Staðsetning nemenda á skalanum (stigafjöldi þeirra) segir til um áætlaða hæfni þeirra á sviðinu og hæfninni er lýst nánar með upplýsingum um hvers konar verkefni viðkomandi nemendur eru líklegir til að geta leyst. Nemandi sem fær tiltekinn stigafjölda telst líklegur til að geta leyst verkefni sem eru á samsvarandi stað á skalanum ásamt verkefnum sem eru þar fyrir neðan. Hann er hins vegar ólíklegur til að geta leyst verkefni sem staðsett eru ofar á skalanum.

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu er Ísland í sjötta neðsta sæti þegar meðaltal þessara þriggja hæfnisviða er skoðuð, með 447,3 stig. Er Ísland með 459 stig fyrir stærðfræðilæsi, 447 stig í læsi á náttúrufræði, en fær fæst stig, eða 436 fyrir lesskilning.

Ísland lækkar mest í öllum flokkum

Þá er þróun á milli kannana einkar slæm í samanburði við aðrar OECD-þjóðir. Ísland lækkar um flest stig í öllum flokkum og fer niður um 36 stig í stærðfræðilæsi, 38 stig í lesskilningi og 28 stig í læsi á náttúrufræði.

Jafnvel þegar önnur lönd utan OECD eru skoðuð sést að þróunin á Íslandi er einkar slæm. Í stærðfræðilæsi er það aðeins Albanía og Jórdanía sem lækka meira. Albanía er eina landið sem lækkar meira milli kannana í lesskilningi og Albanía og Norður-Makedónía lækka meira í læsi á náttúrufræði.

Skarpari lækkun varð á mældum árangri ungmenna á Íslandi en …
Skarpari lækkun varð á mældum árangri ungmenna á Íslandi en í öllum OECD-löndunum og aðeins örfá lönd utan OECD mældust með meiri lækkun.

Yfir þriðjungur í öllum flokkum undir grunnhæfni

Til að setja árangurinn í betra samhengi er frammistaða nemenda einnig sett fram sem hlutfallsleg dreifing á hæfniþrepum á Pisa-skalanum, en þau spanna á bilinu 60-80 stig. Fylgir hverju hæfniþrepi lýsnig á þeirri hæfni sem nemendur eiga að búa yfir.

Þá skilgreinir OECD þrep 2 á öllum sviðum sem grunnhæfni. Það þýðir að einungis nemendur sem hljóta að lágmarki stig á þrepi 2 teljast búa yfir grunn- eða lágmarkshæfni í viðkomandi sviði. Þá þykja þeir nemendur sem skora á þrepi 5 eða hærra sýna afburðahæfni á því sviði.

Á meðfylgjandi þremur myndum má sjá hvernig þessi þrepaskipting er hjá íslenskum börnum, en rétt er að taka fram að fyrsta þrep hefur fjóra undirflokka og annað þrep er hægra megin við punktalínuna. Samkvæmt könnuninni er yfir þriðjungur 15 ára barna á Íslandi sem nær ekki grunnhæfni samkvæmt viðmiðum OECD.

Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í stærðfræðilæsi í PISA …
Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í stærðfræðilæsi í PISA 2022. Tæplega 34% nemenda á Íslandi mælast undir grunnhæfni í stærðfræðilæsi. Graf/Menntamálastofnun
Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í lesskilningi í PISA …
Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í lesskilningi í PISA 2022. 40% fimmtán ára nem­enda á Íslandi búa ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi. Hlutfallið er 47% meðal drengja, en 32% meðal stúlkna. Graf/Menntamálastofnun
Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í læsi á náttúruvísindi …
Hlutfallsleg dreifing nemenda OECD-ríkja á hæfniþrep í læsi á náttúruvísindi í PISA 2022. Um 36% íslenskra nemenda ná ekki grunnhæfni í læsi á náttúrufræði. Graf/Menntamálstofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert