Mikilvægt að upplýsa skólana um gengi nemenda

Kristina Kallas, menntamálaráðherra Eistlands.
Kristina Kallas, menntamálaráðherra Eistlands. Ljósmynd/Raimo Roht

Eistland er efst Evrópulanda í nýjum niðurstöðum PISA-könnunarinnar. Kristina Kallas, menntamálaráðherra landsins, segir það mikilvægt að upplýsa skólana um gengi nemenda þeirra, til að skólarnir geti metið styrkleika sína og horft til þess sem þarf að bæta.

Í samtali við mbl.is segir ráðherrann að allt lærdómsferli feli í sér bakslag og endurmat, öðruvísi verði engin framþróun. Því kjósi Eistar að horfa á PISA sem endurgjöf á menntakerfið og það mótlæti sem menntakerfið stendur frammi fyrir.

En á sama tíma og Eistar fagna góðu gengi nemenda sinna í PISA-könnuninni horfa þeir til þess hvernig efla megi menntakerfið til að viðhalda góðu gengi, til að fylgja þróuninni og viðhalda þeirri færni og kunnáttu sem nemendurnir þurfa að hafa í nútímasamfélagi.

„Hvort að við séum að ná að fylgja þróuninni eftir og þróast í takt við samfélagslegar breytingar, með því að viðhalda þeirri færni og þekkingu sem við þurfum á að halda,“ segir Kallas. Könnunin veiti því ekki endurgjöf á einstaka nemendur eða kennara í landinu.

Neita að upplýsa grunnskóla hér á landi

Morgunblaðið greindi frá því á föstudag að menntamálayfirvöld Finnlands og Eistlands upplýstu grunnskóla ríkjanna um árangur þeirra í PISA-könnuninni. Finnland er efst Norðurlandaþjóða en Ísland er þeirra neðst.

Áður hafði Morgunblaðið fjallað um hvernig Menntamálastofnun hefur neitað að upplýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveimur könnunum, árin 2022 og 2018,

Frá blaðamannafundi í Eistlandi þegar niðurstöður PISA-könnunarinnar voru kynntar þann …
Frá blaðamannafundi í Eistlandi þegar niðurstöður PISA-könnunarinnar voru kynntar þann 5. desember.

Mikilvægt að skólarnir átti sig á því hvar nemendurnir standa 

Eins og áður sagði segir Kallas það mikilvægt að upplýsa skólana um gengi nemenda þeirra, til að skólarnir geti metið styrkleika sína og horft til þess sem þarf að bæta. Að hennar sögn er þó ekki um að ræða opinberar upplýsingar heldur einungis fyrir hvern skóla til að vinna úr.

Kallas segir þetta mikilvægt til að skólarnir átti sig á því hversu margir nemendur þeirra eru undir meðaltali og hversu margir nemendur eru undir meðaltali.

Séu margir nemendur undir meðaltali, til að mynda í stærðfræði, þá geta skólarnir lagt ríkari áherslu á grunnþekkingu nemenda í faginu, til að nemendurnir geti raunverulega haldið áfram að afla sér þekkingar, segir Kallas.

Með þessu fyrirkomulagi hafa skólarnir jafnframt yfirsýn yfir það hvort nemendum, sem hafa tilskilda grunnþekkingu, sé með tímanum að fjölga eða fækka.

Kennarar endurmenntaðir í snarhasti

Kallas segir skólana þannig nýta sér niðurstöðurnar til að skipuleggja skólastarfið með það að markmiði að styrkja nemendur sína. Sem dæmi segir hún að árið 2006, þegar Eistland tók fyrst þátt í PISA-könnuninni, hafi nemendur landsins staðið mjög illa í því að lesa sér til gagns samanborið við rússneska nemendur.

„Þá fórum við að skoða hvaða kennsluaðferðir væru notaðar til að kenna lestur í Rússlandi og tókum eftir því að megináherslan í kennsluaðferðum Rússa væri á að nemendur gætu lesið textann rétt, frekar en að skilja hann,“ segir Kallas og útskýrir að í kjölfarið hafi áherslum í lestrarkennslu verið breytt.

Kennarar landsins voru endurmenntaðir í snarhasti og gríðarleg áhersla var lögð á hraðlestur nemenda. Samhliða fór árangur nemenda að sýna sig og framfarir í PISA sömuleiðis, segir Kallas og bendir á að áður hafi eistneskir nemendur mælst tveimur námsárum á eftir rússneskum nemendum, en nú muni eingöngu hálfu námsári.

„Þetta er eitt dæmi um það hvernig við höfum nýtt niðurstöðurnar til að skoða hvað það er sem við getum gert betur.“

Mikilvægt að nemendur séu gagnrýnir á það sem þeir lesa 

Eistar standa að mörgu leyti frammi fyrir sama vandamáli og Íslendingar þegar kemur að lestri barna. Kallas segir áberandi að börn í Eistlandi lesi minna nú en áður, jafnframt að leshraði þeirra sé minni.

Hún segir leshraðann þó ekki skipta öllu máli í nútíma samfélagi, heldur skipti meira máli að nemendur og einstaklingar séu gagnrýnir á það sem þeir eru að lesa.

„Þegar þau eru að lesa þá eiga þau ekki einungis að skilja hvað þau eru að lesa til að geta endurtekið það sem kom fram, þau eiga líka að geta verið gagnrýnin á það sem þau eru að lesa. Þannig að þau átti sig á því hvort að þau geti treyst því sem fram kemur í textanum eða ekki.“

Þetta segir Kallas sérstaklega mikilvægt í ljósi allra þeirra upplýsinga sem berast úr öllum áttum í nútímasamfélagi.

Áhersla á jafnt aðgengi allra til náms

Eitt af því sem hægt er að skoða út frá niðurstöðum PISA-könnunarinnar er félagslegur og efnahagslegur bakgrunnur nemenda.

Hér á Íslandi gefa niðurstöðurnar vísbendingar um að meiri fylgni sé milli menntunar foreldra en áður hefur sést og Kallas segir það sama eiga við í Eistlandi.

Hún segir þetta áhyggjuefni sérstaklega þar sem Eistland leggur ríka áherslu á jafnt aðgengi að námi óháð fjárhagsstöðu fjölskyldna. Hún segir þetta eitthvað sem þurfi að veita sérstaka athygli og að jafnframt þurfi að skoða hvort munur sé á milli skóla eða landshluta.

Annað áhyggjuefni í Eistlandi snýr að menntunarstigi kennara og auknu álagi á þá. Kallas segir þetta jafnframt eitthvað sem stjórnvöld þurfi að beina athygli sinni að, enda þurfi góða kennara til að halda góðumenntunarstigi.

Ekki fylgin því að banna símanotkun í skólum með landslögum

Þegar Kallas er spurð hvort stjórnvöld í Eistlandi hafi íhugað að banna símanotkun nemenda segir hún það þvert á móti stefnu þeirra. Hún segist ekki hafa trú á því að landslög um símabann í skólum myndu hafa mikil eða góð áhrif, auk þess sem það yrði þá lögreglunnar að fylgja þeim eftir.

Þess í stað hafa margir skólar og jafnvel sveitarfélög tekið það upp að setja eigin reglur um símanotkun í skólunum.

Kallas segir reglurnar í þeim tilfellum unnar innan skólasamfélagsins, af foreldrum og starfsmönnum skólanna. Að hennar mati er það skynsamlegri nálgun enda árangursríkast að reglurnar séu settar af þeim sem komi til með að framfylgja þeim.

Hún segist þó fullmeðvituð um þau neikvæðu áhrif sem símarnir hafa á nemendur, bæði með tilliti til einbeitingar og athygli, hins vegar séu símarnir jafnframt tól til kennslu. Kallas segist þannig fylgin því að nemendum sé kennt að nýta sér tólin í stað þess að þau séu tekin af þeim. Bæði til að leita sér upplýsinga og til að vinna saman, til dæmis í hópvinnu.

Gervigreindin næsta verkefni

„Það sem símarnir og gervigreindin eiga sammerkt er að þetta er hluti af lífi barnanna, þannig að það þarf að kenna þeim hvernig á að nota tæknina, ekki koma í veg fyrir að þau geti nýtt sér hana. Þau þurfa að læra að stjórna tímanum sem þau verja í tækjunum, til að geta bæði leitað upplýsinga og notað tækin til afþreyingar,“ segir Kallas.

Bætir hún við að næsta verkefni sé að takast á við hvaða áhrif gervigreind mun hafa á kennslu.

Hún segir nauðsynlegt að þjálfa hæfni kennara í því að nýta sér gervigreindina til góðs. Bæði til að þeir geti nýtt sér tæknina til kennslu, en jafnframt svo kennararnir skilji hvernig gervigreindin er að þróast samhliða þróun mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert