Ótímabært að ákveða um uppbyggingu varnargarða við Grindavík

Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, kveðst gífurlega þakklát að sjónarmið sérfræðinga varðandi varúðarráðstafanir í Grindavík hafi ráðið för í rýmingaráætlun bæjarins. Atburðarás gærkvöldsins hafi sýnt hversu skammur aðdragandinn að eldgosi geti verið.

Í samtali við blaðamann mbl.is að ríkistjórnarfundi loknum sagði Katrín að ráðherranefnd hefði átt góðan fund á föstudaginn með Veðurstofu Íslands, almannavörnum og lögreglustjóranum á Suðurnesjum um hvort eldgosahætta hafi verið liðin hjá. Mat þeirra hafi verið skýrt og gosið því í raun ekki komið henni að óvörum í gærkvöldi.

„Þar komu fram mjög skýr sjónarmið um að það væri mjög mikilvægt að gæta varúðar áfram (...) eðlilega hafa Grindvíkingar verið að fyllast óþreyju eftir því að fá að snúa aftur heim. En eins og við sáum í gær með þennan skamma aðdraganda að gosinu, þá var ég afskaplega þakklát að þessi sjónarmið fengu að ráða för.“

Katrín segir gærkvöldið hafa sýnt hve skammur aðdragandinn að eldgosi …
Katrín segir gærkvöldið hafa sýnt hve skammur aðdragandinn að eldgosi geti verið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa upplýsingar um fjölskyldur í óviðunandi aðstæðum

Hún kveðst hafa heyrt frá Grindvíkingum í morgun sem hafi lýst því að þeir geti nú varpað öndinni léttar að einhverju leyti þar sem óvissan sé nú að mestu að baki. Hins vegar megi alls ekki gleyma að þarna sé heilt prósent Íslendinga sem hafi verið fjarri heimilum sínum síðan snemma í nóvember og horfi nú fram á hamfarir í næsta nágrenni.

„Þetta er mjög mikið áfall fyrir heilt byggðarlag (...) þannig ég vil segja að það hafi aldrei verið mikilvægara að við stöndum saman í þessu verkefni,“ segir Katrín. 

Hún segir það gríðarlega mikilvægt, þrátt fyrir að þingið hafi lokið ýmsum málum sem snerti Grindvíkinga er varða launagreiðslur og húsnæðisstuðning, að ráðamenn haldi áfram af fullum krafti að tryggja íbúðarhúsnæði til þeirra sem eigi við sárt að binda. Þegar sé búið að tryggja ákveðnar heimildir til innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að festa kaup á íbúðarhúsnæði.

„Við höfum upplýsingar um fjölskyldur sem eru að missa húsnæði eða eru í óviðunandi aðstæðum, þannig það þarf að mæta því.“

Varnargarðarnir mikilvæg framkvæmd

Þú lagðir fram frumvarp á Alþingi í nóvember sem veitti dómsmálaráðherra heimild til þess að fyrirskipa uppbyggingu varnargarða með hraði. Þú hlýtur að vera fegin því í dag?

„Ég held að þetta skipti miklu máli. Við erum á lokametrunum með þann varnagarð sem er ætlað að verja orkuverið, gríðarlega mikilvæg framkvæmd að mínu viti. Svo erum við auðvitað með ákveðnar hugmyndir um varnargarða fyrir byggðina í Grindavík en við tókum fund í morgun og metum það ekki tímabært að taka ákvörðun um það. En þetta er eitt af því sem er mjög gott að vera algjörlega búin að kortleggja frá grunni þegar svona atburðir hefjast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert