Benda á að Ísland ber skyldur

Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra settust …
Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra settust niður í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég afhenti henni möppu sem inniheldur kæruna frá Suður-Afríku og bréf frá félaginu Ísland-Palestína, þar sem við erum að benda á að Ísland ber skyldur, samkvæmt sáttmála um Alþjóðaglæpadómstólinn sem Ísland hefur undirritað. Ef stjórnvöld verði vör við þjóðarmorð í uppsiglingu, hvað þá í gangi, þá beri þeim skylda til þess að grípa inn í.“

Þetta sagði Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína, sem settist niður með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun.

Um 100 mótmælendur tóku sér stöðu fyrir utan bústaðinn og kyrjuðu hendingar eins og „Börnin á Gasa eru okkar börn“.

Katrín kom út, heilsaði fólkinu og bauð Hjálmtý við annan mann inn fyrir dyr Ráðherrabústaðarins. Hjálmtýr sagði í samtali við mbl.is í kjölfar fundarins að forsætisráðherra hefði verið mjög kurteis.

Best að styðja ákæru Suður-Afríku

Hann sagði við Katrínu að það besta sem stjórnvöld gætu gert á þessum tímapunkti væri að styðja ákæru Suður-Afríku á hendur Ísrael fyrir Alþjóðaglæpadómstólnum. „Það er mjög mikilvægt að gera það strax.“

Sagði Hjálmtýr að Katrín hefði sagt stjórnvöld styðja Alþjóðaglæpadómstólinn og sagði hann í sjálfu sér rétt að gera það en að meira þyrfti til.

Katrín var kurteis og heilsaði mótmælendum.
Katrín var kurteis og heilsaði mótmælendum. mbl.is/Árni Sæberg

110 börn á dag

„Það er verið að drepa 110 börn á dag og þetta heldur bara áfram. Það verður að reyna að stoppa þetta. Kæra Suður-Afríku gæti sett smá pressu.“

Hjálmtýr sagðist telja erfitt um vik fyrir Katrínu að hreyfa við málinu í þessari ríkisstjórn eins og hún vildi kannski gera. Rifjaði hann upp í því sambandi að hún hefði fyrir nokkrum árum talað um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.

Sagði hann baráttu mótmælenda og félagsins Ísland-Palestína hafa skilað árangri og nefndi sem dæmi að Ísland hefði setið hjá í atkvæðagreiðslu um daginn en breytt afstöðu sinni vegna þrýstings.

Hjálmtýr sagði stöðugar aðgerðir hafa staðið yfir. Minntist hann á …
Hjálmtýr sagði stöðugar aðgerðir hafa staðið yfir. Minntist hann á mikinn fjölda fólks sem kemur saman í svona veðri eins og er í dag með stuttum fyrirvara. Sagði hann það sýna stuðninginn við málstað Palestínu. mbl.is/Árni Sæberg

Stöðugar aðgerðir

„Það er minna svigrúm fyrir fólk að tala út í loftið. Við erum búin að vera með stöðugar aðgerðir og 76% þjóðarinnar styðja málstað Palestínu, það eru tvær skoðanakannanir sem sýna það.“

Þá sagði hann að allur þessi fjöldi sem kemur saman í svona veðri með stuttum fyrirvara sýndi það einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert