Nýjar gervihnattamyndir sýna tvo sigkatla

Gervihnattamynd með merkingum Veðurstofu.
Gervihnattamynd með merkingum Veðurstofu. Kort/Veðurstofa Íslands

Vatnshæð í Gígjukvísl er nú aftur orðin lík því sem hún var áður en hlaupa tók úr Grímsvötnum.

Hlaupið náði hámarki í ánni fyrir um það bil viku og hefur vatnshæðin farið lækkandi síðan.

Hlaupórói sem mældist á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli hefur líka dvínað og er nú kominn niður í eðlilegt horf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Segir þar að frá því á mánudaginn í síðustu viku hafi 21 jarðskjálfti mælst í Grímsvötnum, þar af tveir skjálftar yfir tveimur að stærð.

Gæti hafa myndast nú eða verið eldri ketill

Þá er bent á að í Grímsvatnahlaupinu árið 2021 hafi myndast sigketill – sprungin dæld á yfirborði jökulsins, suðaustur af Grímsfjalli. Hann sé nærri farvegi hlaupanna undir jöklinum..

„Starfsmenn Veðurstofunnar, sem voru á ferð á Vatnajökli í síðustu viku að sinna mælarekstri, sáu móta fyrir sigkatli á svipuðum stað. Við skoðun á gervitunglamyndum frá því í gær, 21. janúar, sjást tveir sigkatlar suðaustur af Grímsfjalli,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

„Annar þeirra er sá sem myndaðist í hlaupinu 2021 en hinn gæti hafa myndast í nýafstöðnu hlaupi eða verið eldri ketill sem hefur virkjast aftur. Sigkatlarnir eru nærri ferðaleið austur af Grímsfjalli og æskilegt að forðast ketillinn á ferð um þær slóðir.“

Hnit fyrir staðsetningu sigkatlanna eru eftirfarandi:

  • Sigketill GV-33: 64°23,611' og -17°13,017' (baughnit, WGS-84)
  • Nýr sigketill: 64°23,766' og -17°12,729' (baughnit, WGS-84)
Veðurstofan bendir á tvo sigkatla við Grímsvötn.
Veðurstofan bendir á tvo sigkatla við Grímsvötn. Kort/Veðurstofa Íslands

Kóðinn aftur orðinn grænn

Þegar jökulhlaupið hófst var fluglitakóði fyrir eldstöðina færður upp á gult vegna þess að auknar líkur þóttu á eldgosi í kjölfar þrýstiléttis eftir að vatn flæddi úr Grímsvötnum.

„Þar sem jökulhlaupinu er lokið og engar skammtíma breytingar í virkni hafa mælst verður fluglitakóðinn aftur færður niður á grænt,“ segir í tilkynningunni.

Þó er rifjað upp að til lengri tíma litið hafi virkni í Grímsvötnum verið þó nokkur og síðustu fimm mánuði hafi fjöldi jarðskjálfta verið yfir þeim fjölda sem telst eðlileg bakgrunnsvirkni.

„Ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum er gert ráð fyrir því að ákafrar aukningar í smáskjálftavirkni yrði vart áður en gos hæfist. Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar munu áfram fylgjast mjög náið með Grímsvötnum og miðla upplýsingum ef virkni eykst frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert