Nauðsyn Þjóðarsjóðs blasi við

„Hamfarirnar í Grindavík eru þegar orðnar þær mestu og flóknustu …
„Hamfarirnar í Grindavík eru þegar orðnar þær mestu og flóknustu sem Íslendingar hafa þurft að takast á við frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973,“ ritar Sigurður Kári. mbl.is/Árni Sæberg

Hamfarirnar í Grindavík eru sérstakar og flóknari en þær sem við höfum áður þurft að takast á við, segir Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, sem ritar um hamfarirnar og næstu skref í Morgunblaðinu í dag. Seigr hann nauðsyn Þjóðarsjóðs blasa við.

Erfitt að andmæla mati jarðvísindamanna

„Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með náttúruöflunum ganga nærri Grindavík og Grindvíkingum. Framtíðin er óviss og margir hafa átt um sárt að binda. Eyðileggingin er þegar orðin mikil og enn sér ekki fyrir endann á umfangi hennar.

Færustu jarðvísindamenn hafa sagt að við núverandi aðstæður sé ekki búandi í bænum enda aðstæður mjög óöruggar. Það er erfitt að andmæla því mati,“ ritar Sigurður Kári jafnframt.

Segir hann jörðina undir Grindavík krosssprungna og hætturnar leynast víða. Hann segir svörtustu spár herma að eldsumbrotum innan bæjarmarkanna sé jafnvel ekki lokið.

„Hamfarirnar í Grindavík eru þegar orðnar þær mestu og flóknustu sem Íslendingar hafa þurft að takast á við frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973,“ ritar Sigurður Kári.

Lærdóm má draga af atburðum

Segir hann að hamfarirnar ættu að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar um mikilvægi þess að fyrir hendi verði varasjóður, sem nefndur hefur verið Þjóðarsjóður, sem nýta megi þegar tjón verði sem hvorki hefðbundnar vátryggingar né náttúruhamfaratryggingar bæta.

Sigurður segir nauðsyn Þjóðarsjóðs blasa við þegar nauðsynlegt þyki að ráðast í uppkaup á fjölda fasteigna í Grindavík sem ekki er víst að fáist bættar. Hægt væri að nýta slíkan sjóð í stað þess að fjármagna kaupin úr ríkissjóði eða með sértækri skattheimtu.

Sigurður Kári sat fyrir svörum í Spursmálum fyrr í janúar.
Sigurður Kári sat fyrir svörum í Spursmálum fyrr í janúar. mbl.is/María Matthíasdóttir

Rifjar hann upp efnahagsáföll í heimsfaraldrinum og í kjölfar bankahrunsins. Í báðum tilvikum hafi þjóðarbúið orðið fyrir meiri háttar efnahagsáföllum. Þá segir hann að fyrirséð röskun hafi orðið á samgönguinnviðum og orkuframleiðslukerfum okkar og að vistkerfisbreytingar gætu í framtíðinni haft í för með sér alvarleg efnahagsleg áföll.

Þjóðarsjóð segir Sigurður að mætti starfrækja til hliðar við Náttúruhamfaratryggingu Íslands og að fjármagna mætti hann með afrakstri af sameiginlegum náttúruauðlindum okkar, til dæmis arðgreiðslum frá Landsvirkjun eða öðrum ábata af nýtingu auðlindanna.

„Reynslan sýnir að minnsta kosti að til mikils er að vinna fyrir okkur að vera vel undirbúin næst þegar áföll af þeirri stærðargráðu sem við nú upplifum dynja á okkur.“

Grein Sigurðar Kára er að finna á síðu 15 í Morg­un­blaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert