Bjarni viðrar hugmyndir um þjóðarsjóð á ný

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður fjallað um hugmyndir sínar um …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður fjallað um hugmyndir sínar um þjóðarsjóð. Samsett mynd

Hugmyndir um þjóðarsjóð eru komnar fram á ný og frumvarp þess efnis í undirbúningi.

Þetta staðfestir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í nýjum hlaðavarpsþætti Þjóðmála.

Bjarni hefur áður viðrað hugmyndir sínar um þjóðarsjóð, sem í stuttu máli yrði varasjóður sem hægt væri að grípa til þegar efnahagslegir erfiðleikar koma upp. Í hlaðvarpsþættinum er meðal annars rætt um ríkisútgjöld og því velt upp hvort að þau hafi vaxið of mikið og ríkinu um leið færst of mikið í fang. Bjarni telur svo ekki vera og rekur í viðtalinu að mikinn hluta ríkisútgjalda megi rekja til aukinna útgjalda í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar.

Þá segist hann vera þeirrar skoðunar, eftir að hafa gegnt embætti fjármálaráðherra nær sleitulaust í áratug, að skuldahlutföll hins opinbera þurfi að vera lág og ríkið þurfi að hafa borð fyrir báru þegar eitthvað brestur á. Þá segir Bjarni í því samhengi að hann hafi áður talað fyrir þjóðarsjóð og nefnir að unnið sé að frumvarpi um slíkan sjóð.

„Ef að ríkissjóður fer skyndilega í halla af því að það verður aflabrestur, alþjóðaflugvellir lokast eða einhver önnur meiriháttar röskun á sér stað – þá þarf ríkissjóður að taka lán á þeim tíma sem vextirnir hækka,“ segir Bjarni.

„Það er það sem við höfum séð núna. Við höfum þurft að taka lán á meðan ríkissjóður er í halla, á allt öðrum kjörum en átti við áður en heimsfaraldur skall á. Þá hefði verið mjög gott að eiga fyrir útgjöldunum í einhvers konar áfallavarasjóði og koma út úr kreppunni miklu skuldalægri. Og þegar kreppan er yfirstaðin og vextirnir komnir aftur niður, þá getur [ríkissjóður] endurfjármagnað sig og lækkað vaxtabyrðina.“

Bjarni er þó spurður út í hættuna á því að stjórnmálamenn gangi að óþörfu í slíkan sjóð og nýti hann í önnur verkefni.

„Það þarf að hugsa fyrir því, að honum sé ekki spreðað í einhver slíka mál,“ segir Bjarni.

„Þú getur sagt það sama með alla hluti, eins og skatta. Við sjáum skína í það nú þegar að Samfylkingin talar fyrir auknum ríkisútgjöldum á grundvelli þess að skattar verði hækkaðir.“

Í hlaðvarpsþættinum er einnig rætt við Bjarna um samstarfið í ríkisstjórninni og það hvort að samstarfið hangi á bláþræði, um málefni hælisleitenda, helstu áskoranirnar sem eru framundan á vettvangi stjórnmálann, um mögulega sölu ríkisfyrirtækja og margt fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK