Dregur úr éljum og vindi eftir klukkan 17

Það gengur á með dimmum éljum í höfuðborginni.
Það gengur á með dimmum éljum í höfuðborginni. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurfræðingur á Veðurstofu segir við mbl.is að veðrið á höfuðborgarsvæðinu eigi að fara að ganga niður eftir klukkan 17 í dag.

Veðrið virðist enn sem komið er ekki verið eins og vont og spáð var en af og til hefur gert dimm él á höfuðborgarsvæðinu. Gular veðurviðvarnir tóku gildi klukkan 12.30 á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi og gilda þær til klukkan 17-18.30 en á Suðausturlandi til klukkan 19.

„Veðrið á höfuðborgarsvæðinu verður verst á milli 14-17. Eftir það gengur það niður og það dregur úr éljum. Lægðarsvæðið færist austur á bóginn og á Suðurlandi og Suðausturlandi líður eitthvað lengri tími þangað til veðrið fari að lagast,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.

Vindhviður hafa náð 30 metrum á sekúndu

Hann segir að vindhraði verði á bilinu 15-23 metrar á sekúndu og það gangi á með éljum og búast megi við skafrenningi á vegum suðvestanlands. Vindhviður hafa farið upp í 30 metra á sekúndu á Kjalarnesi og á Seltjarnarnesi eftir hádegi í dag.

De Vries segir að veðrið skáni til muna á suðvesturhorninu á morgun. Það verða stöku él en undir morgun fari smám saman að hlýna. Þá verði skúrir eða slydduél en seint annað kvöld fari að rigna og hitinn geti náð sjö stigum.

Fyrir austan er bjart veður að mestu í dag með smá éljagangi og allhvössum suðvestan vindi og svipað verði uppi á teningnum þar á morgun.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert