Orkuver í Svartsengi á öruggari stað en fyrir gos

Tóm­as Már Sig­urðsson for­stjóri HS Orku
Tóm­as Már Sig­urðsson for­stjóri HS Orku mbl.is/Óttar

Hugsanlega þyrfti að hækka varnargarðana sem ná utan um orkuverið í Svartsengi, ef eldgos gerist tíður gestur á svæðinu. Staðsetning orkuversins er þó öruggari nú en hún var fyrir fjórum mánuðum vegna bergþjöppunar, að sögn Tómasar Más Sigurðssonar forstjóra HS Orku.

Hann segir unnið sleitulaust að því að koma vatni á Njarðvíkurlögn að nýju. 

„Það er búið að vera mikið álag á öllum. Fólk er búið að vera að vinna í tvo sólarhringa samfleytt, og þar á undan á fullu við að búa til þennan nýja skurð og sjóða saman lagnir,“ segir Tóm­as eftir fund almannavarna í dag. 

„En við skipuleggjum okkur vel. Vinnum á vöktum. Við erum með frábært, reynt fólk sem þekkir kerfið sundur og saman. Og svo með bestu verktaka á landinu að þjónusta okkur. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því.“

Skemmdirnar eru miklar á hjáveitulögninni, sem gaf sig í gærkvöldi.
Skemmdirnar eru miklar á hjáveitulögninni, sem gaf sig í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vörnin bara brást“

„Það má náttúrulega segja að þessi þrjú gos sem hafa orðið núna eru algjörlega í bakgarðinum hjá okkur,“ segir Tómas.

Hann segir að varnargarðarnir í kringum orkuverið hafi verið „fyrsta vörnin“.

„Svo að verja þessa lögn, það er vörn númer tvö. Vörnin bara brást,“ segir hann. Þá hefur fyrirtækið áætlanir til lengri tíma um að byggja svokallaða lághitaveitu nær Reykjanesbæ og einnig tengjast Reykjanesvirkjun. 

„Þetta gerist hratt. Afleiðingarnar eru miklar. Það er ótrúlegt að fá hraun yfir lagnir og bæinn í Grindavík, og svo nokkrum vikum seinna í þessa átt. Í þokkabót rann hraunið mun hraðar en við höfum séð áður.“

Hvort er auðveldara að verja, orkuverið eða lagnirnar?

Er einhver sviðsmynd þar sem orkuverið sjálft yrði fært?

„Þetta er góð spurning. Það er í raun og veru auðveldara að segja það heldur en að framkvæma það,“ svarar Tómas, sem bendir á að orkuverið í Svartsengi sé gífurlega mikilvægt fyrir samfélagið.

„Við þyrftum annað hvort að verja orkuverið eins og það er, eða þá lagnir að því, ef við myndum flytja það. Þá er það spurning hvort er auðveldara að verja. Núna lentum við í því að hraun náði einhvern veginn að ryðjast undir lögn, sem við héldum að væri varin, og lyfta henni upp. Það vissulega getur verði sú sviðsmynd að við þurfum að hækka garðana í framtíðinni og gera eitthvað fleira.“

Jarðfræðin breytist hratt

Tómas segir að vísindamenn telji orkuverið vera á öruggum stað.

Jarðhræringarnar hafi í raun og veru þjappað saman berginu undir orkuverinu, „sem þýðir að við ættum í raun og veru að vera á öruggari stað en við vorum fyrir fjórum mánuðum,“ segir Tómas.

„En hins vegar er þetta jarðfræði og hún virðist breytast hraðar heldur en margt annað. Maður getur aldrei fullyrt neitt,“ segir Tómas að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert