Nýjasta bakslagið sturluð kynfræðsluumræða

Ólöf sagði fólk sem stundaði hatursorðræðu oftar en ekki ná …
Ólöf sagði fólk sem stundaði hatursorðræðu oftar en ekki ná að virkja efasemdafólk með málflutningi sínum og gera vissa hópa tortryggilega. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum að skilgreina hatursorðræðu betur,“ sagði Ólöf Tara Harðardóttir, stjórnarkona í Öfgum, samtökum róttækra femínista, í samtali um hatursorðræðu í þjóðfélaginu á Jafnréttisdögum 2024 við Bjarka Þór Grönfeldt, lektor við Háskólann á Bifröst.

Fór samtal þeirra fram undir dagskrárliðnum Hatursorðræða – hvað er til ráða?, sem streymt var á Facebook-síðu Háskólans á Bifröst og víðar, og fjallaði um það rými sem hatursorðræða fær í samfélaginu og virðist fara stöðugt vaxandi samfara aukinni skautun og öfgahyggju í þjóðfélagsumræðunni, eins og það er orðað í kynningu Jafnréttisdaga á dagskrárliðnum.

„Orðum fylgir alltaf ábyrgð,“ sagði Bjarki og benti á að á vissan hátt væri það á ábyrgð þeirra, sem ekki væru viðfangsefni hatursorðræðu, að „taka slaginn“ og ræða hana, ekki síst að ígrunda það sem saman færi á lýðnetinu í þessum efnum, þar sem saman blandaðist hatursorðræða, fordómar, falsfréttir og samsæriskenningar.

Margir þekki engan í jaðarsettum hópum

„Við vitum að fordómarnir grassera fyrst og fremst í fáfræðinni og ég held að eitt sem væri gott að gera meira af væri meiri fræðsla í skólum þar sem jaðarsettir hópar koma og krakkarnir fá að upplifa öll þessi jákvæðu tengsl [...] því margir þekkja engan í jaðarsettum hópum,“ sagði Bjarki og kvað það oft gleymast að fólki hætti mjög til að ofmeta stærð jaðarhópa.

Vísaði hann í breska rannsókn máli sínu til stuðnings og sagði skynjun fólks á hlutföllin í samfélaginu oft fjarri raunveruleikanum.

Ólöf sagði fólk sem stundaði hatursorðræðu oftar en ekki ná að virkja efasemdafólk með málflutningi sínum og gera vissa hópa tortryggilega. Benti hún á málefni flóttafólks máli sínu til stuðnings.

„Það er mjög framarlega í umræðunni akkúrat núna og margir búnir að vera að fylgjast með því sem fólk er að skrifa á internetið og fólk gerir engan greinarmun á innflytjendum og flóttafólki,“ sagði Ólöf.

Ólöf Tara og Bjarki Þór ræða hatursorðræðu á Jafnréttisdögum 2024 …
Ólöf Tara og Bjarki Þór ræða hatursorðræðu á Jafnréttisdögum 2024 í dag. Skjáskot/Streymi samtalsins

Bjarni nái að virkja reiðina

„Ég veit ekki einu sinni hvar maður á að byrja, það er fólkið sem er með upplýsingarnar sem gerir þær misvísandi eins og [...] Bjarni Ben[ediktsson utanríkisráðherra], hann ruglar og bullar öllu saman og nær einhvern veginn að virkja reiðina í fólki,“ sagði Ólöf og kvað Íslendingum bera skylda til þess að hjálpa bágstöddum erlendis ef þeir gætu.

Talið barst þvínæst að málefnum hinsegin fólks í samfélaginu sem Ólöf sagði ekkert annað en mannréttindamál – ekki pólitískt þrætuepli.

„Það kemur auðvitað inn á afmennskunina,“ sagði hún, „við erum búin að smætta jaðarhópa niður í fólk sem við teljum ekki vera í norminu, við erum búin að smætta þau niður í pólitíska umræðu og nýjasta bakslagið er náttúrulega þessi sturlaða kynfræðsluumræða sem upphaflega sprettur út frá því að Samtökunum 78 er gert það upp að þau sjái um kynfræðslu fyrir grunnskóla sem er náttúrulega gjörsamlega sturlað, þau sjá um hinsegin fræðslu,“ sagði Ólöf.

Bæld og hrædd við orðið kynlíf

Bjarki sagðist sjá ákveðna endurtekningu á þeirri vænisýki sem kviknað hefði kringum réttindabaráttu samkynhneigðra fyrir áratugum, einkum vestanhafs.

„Þessi umræða um kynfræðslu og hinsegin fræðslu er að stórum hluta flutt inn frá Bretlandi, meðal annars, en þetta blandast allt svolítið saman í „anti-trans-retorík“ í þessum stormi,“ sagði hann og kenndi þar upplýsingaóreiðu í samfélaginu um auk þess sem umræða af svipuðum toga færi jafnan af stað í tengslum við bólusetningar „og súrrast svo saman í einn graut“, eins og Bjarki orðaði það.

Ólöf sagðist minnast þess að fyrst þegar kynfræðsluumræðan hefði farið í gang hefði hún hugsað með sér að það þyrfti að „setja þessa foreldra í kynfræðslu. Voðalega eru þau eitthvað bæld og hrædd við orðið kynlíf, eru þetta ekki kynverur?“ rifjaði hún upp að hafa hugsað með sér.

„Maður var bara ruglaður í ríminu þegar maður var [á unglingsárum] að finna sjálfan sig og prufa hluti og hérna er ég ekkert bara að tala um í kynferðislegum tilgangi, bara sem manneskja,“ hélt Ólöf áfram og sagði stóran hluta umræðunnar um kynfræðsluna hafa miðað að því að gera samkynhneigða og fræðslu þeirra tortryggilega.

Ólöf sagði stóran hluta umræðunnar um kynfræðsluna hafa miðað að …
Ólöf sagði stóran hluta umræðunnar um kynfræðsluna hafa miðað að því að gera samkynhneigða og fræðslu þeirra tortryggilega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafi aðgang að mun grófara klámi

„Við erum meiri teprur en við viljum vera láta,“ skaut Bjarki inn í og Ólöf tók undir það. „Börn náttúrulega eru með aðgang að internetinu og TikTok og YouTube og alls konar [vefvöfrum] og þau eru ótrúlega góð í að fela internetsöguna sína og eru oft með tvo-þrjá aðganga að samfélagsmiðlum,“ sagði Ólöf og bætti því við að börn hefðu vafalítið aðgang að mun grófara klámi en margur teldi.

Bjarki benti þá á að misvísandi umræðu væri gjarnan teflt fram undir þeim formerkjum að verið væri að vernda börnin. „Og hver vill það ekki?“ spurði hann. „Einmitt,“ tók Ólöf undir og kvartaði yfir skorti á samhengi – í umræðunni – milli þess að vernda börn með því að kenna þeim að setja mörk og að þau eigi sinn líkama.

„Það má enginn gera eitthvað við líkama þeirra sem þau vilja ekki. Þarna erum við í raun að byggja upp einstaklinga sem er erfiðara að brjóta niður mörkin [hjá] [...] og auðvitað væri það bara fullkomin paradís ef enginn í samfélaginu myndi nokkurn tímann beita ofbeldi. Með þessari aðferðafræði erum við einmitt að vernda börn,“ sagði Ólöf Tara Harðardóttir í Öfgum í spjalli sínu við Bjarka Þór Grönfeldt lektor í umfjöllun um hatursorðræðu á Jafnréttisdögum í dag en dagskrá þeirra má nálgast hér.

Þá er upptaka af spjalli Ólafar og Bjarka aðgengileg á Facebook-síðu Jafnréttisdaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert