„Hvað ætlið þið að gera?“

„Hvað ætlið þið að gera?“ spyr Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna …
„Hvað ætlið þið að gera?“ spyr Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna og beinir spurningu sinni til forsvarsmanna skipafélaganna og stjórnvalda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru gígantískar upphæðir sem um er að ræða,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, um verðsamráð skipafélaganna og áætlað samfélagslegt tjón af þeim sem greiningarfyrirtækið Analytica telur hlaupa á tugum milljarða, 62 milljörðum svo vísað sé til sameiginlegrar fréttatilkynningar Félags atvinnurekenda, Neytendasamtakanna og VR fyrr í dag.

Segir Breki pundið ekki þungt í sektargreiðslunni, 4,2 milljörðum króna, eða sjö prósentum af þeim samfélagslega skaða sem fyrirtækin eru talin hafa valdið.

„Þetta sendir bara kolröng skilaboð til fyrirtækja, það er að glæpir borgi sig,“ heldur formaðurinn áfram og leggur spurningu fyrir forsvarsmenn skipafyrirtækjanna: „Hvað ætla þeir að gera til að bæta neytendum það tjón sem þeir hafa valdið okkur?“

Og enn spyr Breki

„Ég beini þessu til alþingismanna og stjórnvalda: Hvað ætlið þið að gera til þess að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur?“ spyr hann og bætir því við að höfundar téðrar fréttatilkynningar bendi á einfaldar leiðir.

„Það er að innleiða lög sem heimila og gera neytendum einfaldara að sækja bætur fyrir samkeppnislagabrot beint til fyrirtækja. Í því fælist gífurlegur fælingarmáttur sem kæmi í veg fyrir að svona lagað endurtæki sig,“ segir Breki sem enn fremur vill betrumbæta lög um hópmálsókn sem þó séu ágæt að mörgu leyti.

„En dómaframkvæmd hefur verið þannig að öllum málum hefur verið vísað frá nema kröfurnar séu algjörlega eins. Þetta er eitthvað sem þarf að bæta og er hægt að gera á einfaldan hátt, það þarf ekki ótal nefndir og ráð eða endalausan tíma. Það þarf bara að bretta upp ermar og gera þetta,“ segir Breki af festu.

Hvernig hyggjast Neytendasamtökin beita sér í málinu?

„Við erum að skoða málið núna og bíðum svara frá fyrirtækjunum. Við bíðum svara frá stjórnvöldum, hvað ætla þau að gera? Samhliða erum við að skoða næstu skref,“ svarar Breki og rifjar upp olíuverðsamráðsmálið á sínum tíma þar sem samtökin hafi sótt bætur.

„Það var löng og ströng ganga en það kom á endanum. Við þurfum bara að líta í okkar rann og kanna hvað við getum gert,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, að lokum um verðsamráðsmál skipafélaganna og samfélagslegt tjón af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert