„Kvikuhlaup geta verið af öllum mögulegum stærðum“

Séð yfir gosstöðvarnar í síðasta eldgosi sem varð 8. febrúar.
Séð yfir gosstöðvarnar í síðasta eldgosi sem varð 8. febrúar. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson

„Ástandið á Reykjanesskaganum er óbreytt. Þetta var sáralítið kvikuhlaup sem átti sér stað á laugardaginn og munar í sjálfu sér ekkert um það varðandi þann tíma sem það tekur í næsta atburð.“

Þetta segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, við mbl.is spurður út í stöðuna á Reykjanesskaga.

Svipuð staða og fyrir helgi

Hann segir að kerfið hafi verið fljótt að jafna sig eftir atburðinn á laugardaginn en þá hófst kvikuhlaup sem stöðvaðist við Hagafell. Líkanreikningar Veðurstofu Íslands benda til að um 1,3 milljón rúmmetra af kviku hafi verið í kvikuhlaupinu.

„Það er ómögulegt að segja til um framhaldið og hvort eitthvað gerist á næstu dögum. Staðan í dag er mjög svipuð og var fyrir tveimur dögum síðan. Það hefur lítið breyst við þessa atburðarrás. Það getur enginn sagt til um það hvort það verði aftur kvikuinnskot eða eldgos,“ segir Páll.

Lítið hlaup í samanburði við Kröflu

Kom þér á óvart að þessi atburðarrás á laugardaginn skildi enda með þeim hætti sem hún gerði?

„Nei ekkert endilega. Þetta var einn af möguleikanum. Kvikuhlaup geta verið af öllum mögulegum stærðum. Allt frá því að vera mjög lítil yfir í það að vera mjög stór,“ segir Páll.

Páll Einarsson segir að atburðurinn á laugardaginn hafi verið mjög …
Páll Einarsson segir að atburðurinn á laugardaginn hafi verið mjög lítill. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að hlaupin sem hafa verið undanfarið hafi verið frekar lítil í samanburði við til dæmis sem var þekkt úr Kröflu á sínum tíma.

„Við þekkjum svona atburðarrás eða skilda frá fyrri tíð. Þessir atburðir á Reykjanesskaga hafa verið tiltölulega litlir sem líka þýðir þá að tíminn á milli þeirra verður oft frekar stuttur. Það er háð stærð undangengis atburðar hversu lengi kerfið er að ná sér aftur,“ segir Páll.

Ekkert lát virðist á uppstreymi kviku

Hann segir að atburðurinn á laugardag hafi verið mjög lítill og þá verði tíminn stuttur á eftir. Páll segir að ekki sé hægt að slá því föstu hvort þessir síendurteknu atburðir á Reykjanesskaganum haldi áfram eða ekki.

„Svona atburðarrás getur tekið enda og gerir það einhvern tímann. Nákvæmlega hvenær það verður er ómögulegt að segja til um. Það fer eftir því hvað kvikustreymið að neðan er þrálátt. Hingað til hefur það verið á fullum krafti allan tímann og það virðist ekki vera neitt lát á því en við þekkjum líka dæmi um það að þetta hafi endað mjög snögglega.“

Þrýstingurinn lækkaði lítið

Páll segir þrýstinginn á kerfinu hafa lækkað mjög lítið í kjölfar kvikuhlaupsins á laugardag.

„Miðað við það kvikustreymi sem hefur undanfarna mánuði upp í hólfið þá tekur ekki nema tvo til þrjá daga fyrir kerfið að jafna sig aftur,“ segir Páll.

Ekki hægt að reikna út líkur

Sumir vísindamenn hafa haft orð á því að eldvirknin á Reykjanesskaga geti færst yfir í Eldvörp.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að það verði raunin segir Páll:

„Það er vissulega ein af sviðsmyndunum að geti gerst en ég held að enginn geti á þessu stigi sagt hverjar líkurnar eru fyrir hverri sviðsmynd fyrir sig. Þær eru býsna margar og við höfum hreinlega ekkert í höndunum sem getur sagt okkur um það hver þeirra verður ofan á næst.“

Hann segir að hvað sem úr verður þá eigi það ekki að koma okkur á óvart. „Forsagan ræður því. Aðstæðurnar í jarðskorpunni stýra þessu og streymi kvikunnar að neðan. Allt spilar þetta saman til búa til svona atburðarrás og það eru margir möguleikar í stöðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert