Útilokar ekki að kvikan nái að brjótast upp

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, segir ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvaða sviðsmynd muni raungerast á næstu dögum og hvort komi til eldgoss. Spurður hvernig standi á því að eldgos hafi ekki brotist út eftir að kvika hljóp úr kvikuhólfinu, og Grindavíkurbær og Svartsengi voru rýmd í kjölfarið, segir Benedikt það ávallt góða spurningu.

„Þessi innskot sem hafa núna orðið hafa verið með ákveðnum takti og síðustu þrjú hafa leitt til eldgoss,“ segir Benedikt en hann segir ferlið sem hafi farið af stað í gær hafa verið keimlíkt hinum að undanskildum aflögunarmerkjum sem voru veikari.

Benedikt Halldórsson.
Benedikt Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikan sem hafi safnast upp undir Svartsengi hafi til að mynda náð svipuðu magni og talið er að hafi hlaupið úr kvikuhólfinu í síðasta gosi 8. febrúar, og því hafi tímasetning skjálftahrinunnar sem hófst í gær ekki komið á óvart og hafði hættumatið því verið uppfært í takt við það á fimmtudaginn. Síðan hafi skjálftahrina farið af stað sem sé einkenni þess að kvika sé á hreyfingu neðanjarðar. Aflögun hafi aftur á móti mælst minni á yfirborðinu, en til að kvikugangur nái upp á yfirborðið þurfi þrýstingur að vera meiri en raun bar vitni.

„Inn í þetta kerfi streymir stöðugt kvika, frá 25. október, og þetta kerfi hefur létt á sér nokkrum sinnum og það virtist vera kominn tími á það núna. En það varð hins vegar minna.“

Spurður hvort hann telji líklegra að það komi nýtt hlaup á næstu dögum eða að kvikan úr hlaupinu á laugardag nái að brjóta sér leið upp á yfirborðið, segir Benedikt báðar sviðsmyndir mögulegar en fyrri möguleikinn sé það sem við höfum vanist að undanförnu. Síðari möguleikanum svipi þó til eldgosanna sem urðu í Fagradalsfjalli.

„Þar braut kvikugangur sér leið, síðan dó skjálftavirknin niður og nokkrum dögum seinna kom gosið upp, tiltölulega hljóðlaust. Það er af þessum sökum sem við erum á tánum ennþá.“

Komi til þessa telji hann aftur á móti líklegt að nokkrar klukkustundir séu til reiðu til að bregðast við. Þá kæmi kvikan líklegast upp langt frá innviðum. Hann telur þó útilokað að segja til um hvor sviðsmyndin sé líklegri en mælingar bendi í raun til hvorugs að svo stöddu, enda skjálftavirkni lítil og ekki útlit fyrir kerfisbundna aflögun.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert