Líklegt að það dragi til tíðinda „mjög fljótlega“

„Við erum allavegana ekki að fara að bíða í þrjár …
„Við erum allavegana ekki að fara að bíða í þrjár vikur eftir að eitthvað gerist,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson við mbl.is mbl.is/Árni Sæberg

Jörð seig afar lítið í Svartsengi þegar kvika hljóp úr kvikuhólfinu í gær og benda mælingar til að „sáralítið“ kvikuinnskot hafi myndast. Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sem telur annað kvikuhlaup á næstu dögum ekki ólíklegt.

Kviku­hlaupið hófst klukk­an 16 í gær með tilheyrandi skjálftavirkni við kvikuganginn. Mesta virknin stóð yfir í rúma klukkustund en hjaðnaði jafnt og þétt eft­ir klukkan 18. Var henni að mestu lokið upp úr klukkan 20.

„Hún [jörð í Svartsengi] hefur aðeins sigið en þetta er mjög lítið,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

„Þetta er kannski dags landris sem það seig um, kannski tveggja daga,“ bætir hann við. 

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eyþór Árnason

Allt að milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu

„[Kvikuinnskotið] liggur þarna á bilinu rétt norðan við Hagafell og norður undir Stóra-Skógfell, eða svona milli Stóra-Skófells og Sýlingarfells,“ útskýrir Benedikt. 

Telur hann á bilinu hálf til ein milljón rúmmetrar af kviku hafa hlaupið úr kvikuhólfinu í gær.

Land hneig afar lítið í kvikuinnskotinu í gær. Sigið jafnast …
Land hneig afar lítið í kvikuinnskotinu í gær. Sigið jafnast á við eins dags landris, að mati Benedikts. Grafið er uppfært á fjögurra tíma fresti. Graf/Jarðvísindastofnun Háskóla Íslans

Þurfum ekki að bíða í þrjár vikur

Hvers vegna gaus ekki?

„Það er einhver fyrirstaða í kerfinu sem kom í veg fyrir að þetta nái sér á strik. Af hverju það er, er kannski erfitt að segja. Mögulega er komin meiri tregða í kvikuganginum að taka við meiri kviku. Það er ein möguleg skýring en ég myndi ekki kannski að fara að fullyrða um það strax. Við þurfum bara að sjá hvernig þetta þróast. Ég held að það sé mjög líklegt að eitthvað gerist aftur mjög fljótlega,“ svarar Benedikt.

„Við erum allavegana ekki að fara að bíða í þrjár vikur eftir að eitthvað gerist,“ bætir hann við.

Gögn benda til þess að kvikuhlaupið í gær hafi stöðvast …
Gögn benda til þess að kvikuhlaupið í gær hafi stöðvast við Hagafell. Kort/mbl.is

Atburðurinn líklegast yfirstaðinn

Benedikt útilokar jafnframt ekki að gos brjótist út frá þessu tiltekna kvikuhlaupi. Meiri líkur séu þó á öðru kvikuhlaupi.

Telur hann líklegra en ekki að atburðurinn sem hófst í gær sé yfirstaðinn. 

„Við eigum kannski ekki von á því að það gerist eitthvað meira sem tengist þessum tiltekna atburði. Frekar að það komi eitthvað nýtt kvikuinnskot,“ segir hann „Það gæti gerst mjög fljótlega.“

Mögulega eldgos á næstu dögum

„Ég held að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði nýtt innskot á næstu viku og mögulega gos“ segir Benedikt, spurður hverju hann búist við á komandi viku.

Hann telur aftur á móti kvikuinnskot líklegra en gos í þessu tilfelli.

„Það er enn þá þrýstingur í kvikuhólfinu í Svartsengi. Það losnaði ekkert um það í þessum atburði. Það er það sem við erum að horfa á. Þetta hefur verið sá þrýstingur sem við höfum þurft til þess að komast að nýju innskoti. Það léttir í rauninni ekkert á því núna. Þetta svona rétt fór af stað en svo stoppaði þetta. Eitthvað kom í veg fyrir að þetta hélt áfram,“ segir hann.

„En svo þurfum við bara að bíða og sjá. Það er náttúrulega mjög mikil óvissa í ansi mörgum af þessum túlkunum,“ segir Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert