Áfram auknar líkur á eldgosi

Frá eldgosinu 8. febrúar.
Frá eldgosinu 8. febrúar. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Reikna þarf með að annað kvikuhlaup geti átt sér stað næstu daga og áfram eru auknar líkur á eldgosi líkt og fyrir atburðarrás gærdagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. 

Skjálftavirkni við Sýlingarfell vegna kvikuhlaups sem hófst um klukkan 16 í gær hjaðnaði jafnt og þétt eftir klukkan 18. Henni var að mestu lokið eftir klukkan 20.

„Gögn benda til þess að kvikuhlaupið í gær hafi stöðvast við Hagafell. Líkur á því að kvika komi upp í tengslum við þetta kvikuhlaup hafa minnkað, en áfram verður náið fylgst með svæðinu hvað þann möguleika varðar,“ segir í tilkynningunni. 

Óverulegt magn af kviku sem hljóp

Þá segir að líkanreikningar sýna að magn kviku sem hljóp frá Svartsengi í gær hafi verið óverulegt miðað við fyrri kvikuhlaup sem enduðu með eldgosi. Því er hægt að líta svo á að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur …
Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 2. mars eftir kvikuhlaupið er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu Kort/mbl.is

„Hversu langt er í næsta kvikuhlaup veltur á því hversu hratt þrýstingur vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi byggst upp til að setja það af stað. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður áköf smáskjálftahrina á svæðinu.“

Veðurstofan vinnur nú að nýju hættumati sem verður uppfært á næstu klukkustundum.

Í tilkynningunni segir að atburðarráðs næstu daga verði líklega með eftirfarandi hætti:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur.
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka